Valmynd Leit

Yfirstandandi verkefni

 Verkefnum er raðað í stafrófsröð eftir heitum verkefna:
A|Á|B|C|D|E|É|F|G|H|I|Í|J|K|L|M|N|O|Ó|P||R|S|T|U|Ú|V|X|Y|Ý|Z|Þ|Æ|Ö

Áherslur í starfi með elstu börnum leikskólans. Í nýjum lögum og aðalnámskrám leik- og grunnskóla eru fyrirmæli um samfellu og samstarf á milli skólastiga, ekki hvað síst með það að markmiði að auðvelda börnunum flutning á næsta skólastig. Starfið með elstu börnum leikskólans hefur verið í mikilli þróun síðust árin en lítið hefur verið rannsakað hvernig samfellan er eða samstarfinu er háttað, né heldur hvað leikskólabörn eiga að kunna, geta eða vita við skólaskil.
Markmið rannsóknarinnar var að fá skýrari sýn á starf með elstu börnum leikskólans, hvaða áherslur eru lagðar og að hvaða markmiði er stefnt. Einnig að vita hvernig leikskólastjórar skilgreina skólafærni barna við lok leikskóla. Rannsóknin var framkvæmd á tímabilinu frá júní til september árið 2011 og send 110 leikskólastjórum, 54 í stærri sveitarfélögum og 56 í dreifbýli. Þetta eru 38,7% allra skóla í landinu og alls tóku 65 leikskólastjórar þátt eða 60%.
Þátttakendur: Anna Elísa Hreiðarsdóttir og Eygló Björnsdóttir dósent
Styrkir: Engir
Áætluð verklok: 2015
Birtingar: Anna Elísa Hreiðarsdóttir og Eygló Björnsdóttir. (2011). Á mörkum skólastiga: Áherslur í starfi með elstu börnum leikskólans. Ráðstefnurit Netlu – Menntakvika 2011. Reykjavík: Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Anna Elísa Hreiðarsdóttir og Eygló Björnsdóttir. Breytingar á sumarlokun leikskóla: Áhrif á faglegt starf og starfsaðstæður (grein í ritrýningu).
Ráðstefnuerindi: Anna Elísa Hreiðarsdóttir og Eygló Björnsdóttir. (2012). Nýjar áherslur í aðalnámskrám og áhrif þeirra á starf á mótum leik- og grunnskóla. Erindi haldið á Ráðstefna um þjóðfélagsfræði 2012. 

Anna Elísa Hreiðarsdóttir og Eygló Björnsdóttir. (2011). Á mörkum skólastiga: Starf með elstu börnunum síðustu mánuðina þeirra í leikskóla. Erindi haldið á Menntakviku 2011, árlegri ráðstefnu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.

Anna Elísa Hreiðarsdóttir og Eygló Björnsdóttir. (2011). Á mörkum skólastiga: Ekki gleyma leiknum og gleðinni. Veggspjald á Þjóðarspegillinn 2011: Rannsóknir í félagsvísindum XII, árlegri ráðstefnu félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands.


Áhrif efnahagshrunsins á leikskólastarfMarkmið þessarar rannsóknar er að kanna áhrif efnahagshrunsins 2008 á starf leikskóla en rannsóknir á áhrifum efnahagshrunsins á skólastarf hafa m.a. leitt í ljós að kennarar telja það hafa haft áhrif á gæði starfsins (Eygló Illugadóttir, 2011). Áhrifin virðast meiri á leikskóla en grunnskóla (Sigurlína Davíðsdóttir o.fl., 2012). Sem dæmi um áhrif má nefna að sumarlokun hefur verið lengd, skólar verið sameinaðir, skorið hefur verið niður í fjármálum og samdráttur hefur einkennt rekstrarumhverfið. Spurningakönnun var lögð fyrir 110 leikskólastjóra (þá sömu og þátt tóku í rannsókn okkar 2011) þar sem spurt var um ýmsa þætti er lúta að starfsemi skólanna með sérstakri áherslu á hrunið. Svör bárust frá 69 leikskólastjórum. Niðurstöður sýndu að margt í aðstæðum, starfsumhverfi og starfi leikskólanna hafði breyst á árunum eftir hrun.
Þátttakendur: Anna Elísa Hreiðarsdóttir og Eygló Björnsdóttir dósent
Styrkir: Engir
Áætluð verklok: 2015
Birtingar: Grein í vinnslu
RáðstefnuerindiAnna Elísa Hreiðarsdóttir og Eygló Björnsdóttir. (2014). „Það var einfaldlega ekki til neinn peningur.“ Áhrif efnahagshrunsins á leikskólastarf. Erindi haldið á Hvað búa eiginlega margar þjóðir í þessu litla landi?, 9. ráðstefnunni um íslenska þjóðfélagið, 17.–18. apríl 2015.

Anna Elísa Hreiðarsdóttir og Eygló Björnsdóttir. (2014). Hrunið og leikskólinn. „Það er mikil gróska í okkar skóla“.
Erindi haldið á Norðan við hrun – sunnan við siðbót, 8. ráðstefnunni um íslenska þjóðfélagið, 15.–16. maí 2014.

Anna Elísa Hreiðarsdóttir og Eygló Björnsdóttir. (2014). „Aukið álag og áreiti“: Áhrif efnahagshrunsins á leikskólastarf.
Erindi haldið á Menntakviku 2014, árlegri ráðstefnu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands


 CAVIC: Contemporary art and visual culture in education. Verkefnið er samnorrænt og baltneskt verkefni sem snýr að því að tengja, efla og þróa norrænar og baltneskar rannsóknir og rannsóknarfræði í sjónmenntum og beinir sjónum sérstaklega að samtíma list og sjónmenningu. Verkefnisstjóri er prófessor Helene Illeris við Fagurlistasvið háskólans í Agder, Kristiansand, í Noregi. Verkefnið hófst í nóvember 2009 og var áætlað að því lyki í október 2012. Því hefur þó ekki lokið formlega ennþá og um þessar mundir er unnið að útgáfu bókar sem kemur út á árinu 2013. Þátttakendur: University of Arhus, Oslo University College, Háskólinn á Akureyri, Konstfack listaháskólinn í Stokkhólmi, Aalto University í Helsinki og Siauliai University í Litháen.
Rannsakendur: Fyrir hönd HA tekur Rósa Kristín Júlíusdóttir dósent þátt í verkefninu.
Styrkir: Rannsóknarverkefnið er styrkt af Nordforsk.
Áætluð verklok: 2013.
Birtingar: Bók sem tengist verkefninu er væntanleg í júní 2015. Bókin er ritrýnd og hefur Rósa Kristín Júlíusdóttir fengið samþykkta tvo kafla í bókina, annar þeirra er skrifaður í samvinnu við þrjá aðra rannsakendur í verkefninu.

Upp


Heilsa og lífskjör skólanema - HBSC. Rannsóknarsetur forvarna við Háskólann á Akureyri tekur þátt í alþjóðlegu rannsókninni Health Behaviours in School-Aged Children (HBSC). Rannsóknin er gerð á fjögurra ára fresti með tilstyrk Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.Rannsóknin beinist að margvíslegum þáttum í lífi ungs fólks. Þar má nefna félagslegar aðstæður og tengsl við foreldra og vini, mataræði, hreyfingu og tómstundastarf. Einnig er sjónum beint að áhættuhegðun af ýmsu tagi meðal eldri nemenda, svo sem óábyrgri og hættulegri kynhegðun. Stjórnandi rannsóknarinnar á Íslandi er Ársæll Már Arnarsson prófessor við Háskólann á Akureyri.
Rannsakendur: Rannsakendur úr kennaradeild eru Hermína Gunnþórsdóttir lektor og Trausti Þorsteinsson dósent.
Sjá frekari upplýsingar um verkefnið: http://www.hbsc.is/

Upp


 Íslenska sem námsgrein og mál í námi og kennslu. Verkefnið fjallar um íslensku í leik-, grunn- og framhaldsskólum og nær bæði til íslensku sem sjálfstæðrar námsgreinar á þessum skólastigum og til notkunar hennar sem kennslumáls, óháð námsgrein. Hvað varðar fyrri þáttinn verður horft til þess hvaða þekkingu og færni í íslensku máli nemendur öðlast í íslensku skólakerfi og verður þar hugað að öllum þáttum námsgreinarinnar, þ.e. talaðs mál og hlustunar, ritunar og stafsetningar, lestrar, bókmennta og málfræði. Námsefni, námsmarkmið, kennsluaðferðir og viðhorf kennara og nemanda til greinarinnar verða hér einnig til athugunar. Í síðari hlutanum verður einkum hugað að stöðu íslensku sem kennslumáls og tækis til miðlunar upplýsinga, ekki síst með tilliti til þess þrýstings sem íslenskt málsamfélag verður nú fyrir frá enskri tungu.  Verður sjónum beint að stefnu stjórnvalda og skólaumhverfisins í þessum efnum. Rannsóknin nær einnig til kennaramenntunar á Íslandi og hlutar íslensks máls innan hennar.
Verkefnisstjórn: Kristján Jóhann Jónsson, dósent við Háskóla Íslands, formaður stjórnar rannsóknarinnar, Ásgrímur Angantýsson, lektor við Háskólann á Akureyri, verkefnisstjóri, Brynhildur Þórarinsdóttir, dósent við Háskólann á Akureyri, Finnur Friðriksson, dósent við Háskólann á Akureyri, Hanna Óladóttir, aðjúnkt við Háskóla Íslands, Sigurður Konráðsson, prófessor við Háskóla Íslands. Gerður G. Óskarsdóttir er ráðgjafi rannsóknarhópsins
Styrkir
: Sótt hefur verið um styrki til Rannís, Rannsóknarsjóðs HA og víðar.
Áætluð verklok:  Árslok 2015
Birtingar: Engar enn sem komið er.

Upp


Rannsókn á Byrjendalæsi. Byrjendalæsi er kennslulíkan við læsisnám í yngstu bekkjum grunnskóla. Aðferðina þróaði Rósa Eggertsdóttir, sérfræðingur við Miðstöð skólaþróunar í HA. Frá haustinu 2012 hefur aðferðin verið tekin upp í 77 grunnskólum víða um land undir leiðsögn Rósu og fleiri ráðgjafa við MSHA. Markmið rannsóknarinnar á Byrjendalæsi er að efla rannsóknir og þekkingu á læsi og stuðla að þróun læsismenntunar í grunnskólum. Enn fremur að greina íslenska stefnumótun um læsisnám og þróunarverkefnið Byrjendalæsi í ljósi alþjóðlegrar þekkingar, og til að varpa ljósi á starfs- og skólaþróun við innleiðslu og festingu breytinga á læsismenntun. Rannsóknin beinist að tveimur lykilþáttum Byrjendalæsis: Annars vegar námi og kennslu og hins vegar starfsþróun sem felur í sér rannsókn á starfi leiðtoga og innri þróunarskilyrðum skóla. Nánari lýsing á rannsókninni.
Rannsakendur: Þátttakendur af hug- og félagsvísindasviði HA eru: Eygló Björnsdóttir dósent, Halldóra Haraldsdóttir dósent, Ingibjörg Auðunsdóttir sérfræðingur, Kjartan Ólafsson lektor, María Steingrímsdóttir dósent, Rannveig Sigurðardóttir meistaranemi við kennaradeild, Rósa G. Eggertsdóttir sérfræðingur, Rúnar Sigþórsson prófessor og Sigríður M. Sigurðardóttir lektor. Samstarfsaðilar utan HA eru: Anna Guðmundsdóttir aðstoðarskólastjóri Hrafnagilsskóla, Baldur Sigurðsson dósent við Menntavísindasvið HÍ, Elín Sigurbjörg Jónsdóttir sérkennsluráðgjafi, Gretar L. Marinósson prófessor við Menntavísindasvið HÍ, Guðmundur B. Kristmundsson dósent við Menntavísindasvið HÍ, Guðrún Edda Bentsdóttir verkefnisstjóri hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkur, Hildur Björk Svavarsdóttir deildarstjóri hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Verkefnisstjóri er Rúnar Sigþórsson prófessor við kennaradeild HA, en ásamt honum mynda stjórn verkefnisins: Gretar L. Marinósson, prófessor við Menntavísindasvið HÍ, Halldóra Haraldsdóttir dósent við kennaradeild HA og Sigríður Margrét Sigurðardóttir lektor við kennaradeild HA. Ráðgjafi rannsóknarhópsins er Sue Ellis, Reader við Strathclydeháskóla í Glasgow.
Styrkir: Rannsóknin hefur verið styrkt af Rannsóknasjóði HA, Háskólasjóði KEA, Barnavinafélaginu Sumargjöf, Vinnumálastofnun, Samfélagssjóði Landsbanka Íslands og Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Áætluð verklok: Árslok 2015.
Birtingar:
Eygló Björnsdóttir, María Steingrímsdóttir og Sigríður Margrét Sigurðardóttir. (2013). Viðhorf og reynsla kennara af þátttöku í innleiðingu Byrjendalæsis Netla - veftímarit um uppeldi og menntun. Reykjavík: Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Kjartan Ólafsson, Halldóra Haraldsdóttir og Rúnar Sigþórsson. Kynjamunur og breytileiki milli skóla í niðurstöðum læsisprófs í 1. og 2. bekk í grunnskólum sem nota Byrjendalæsi. Grein í ritrýningu hjá Tímariti um menntarannsóknir.

Rósa Eggertsdóttir. (2013). Starfsþróun og varanlegar breytingar á skólastarfi: Byrjendalæsi í ljósi fræða um starfsþróun. Í Rúnar Sigþórsson, Rósa Eggertsdóttir og Rúnar Sigþórsson (ritstjórar). Fagmennska í skólastarfi: Skrifað til heiðurs Trausta Þorsteinssyni. Reykjavík: Háskólaútgáfan og Háskólinn á Akureyri.
Lesa má um frekari birtingar á vefsíðu Rúnars Sigþórssonar.

Upp 


Rannsóknir á starfi og starfsháttum skóla. Rannsóknirnar eru unnar fyrir mennta- og menningarmálaráðuneyti og beinast að tilgreindum skóla og umhverfi hans. Tilgangur rannsóknanna er að afla trúverðugra upplýsinga um skólastarf í landinu. Markmið rannsóknanna er að leggja mat á hvort starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði gildandi laga, reglugerða og aðalnámskrár og veita almennt upplýsingar um starfsemi þeirra. Í rannsóknunum er áhersla lögð á að afla upplýsinga um eftirtalda þætti: stjórnun og rekstur, skólanámskrá, nám og kennslu, innra mat, skólabrag og samskipti, samstarf við foreldra og sérþarfir nemenda. Við rannsóknirnar er byggt á eigindlegum aðferðum en gagnaöflun fer fram með því að rýna í fyrirliggjandi gögn úr skóla, viðtölum, rýnihópum og vettvangsathugunum. Dregnir eru fram styrkleikar og veikleikar í starfsemi skólans og settar fram tillögur til umbóta.
Rannsakendur: Bragi Guðmundsson, prófessor við HA og Trausti Þorsteinsson, lektor við HA
Styrkir:  Kostnaður er greiddur af mennta- og menningarmálaráðuneyti.
Birtingar:  Skýrslur (2011–)

Upp


Research on Adult Education in the Arctic. Rannsóknin  beinist að möguleikum og hvata til M.Ed.- náms á Íslandi (Norðurland  til Austfjarða og Vestfjarða) og Finnmörk í Noregi. Rannsókninni er ætlað að auka skilning á möguleikum nemenda í dreifbýli á norðurslóðum til að afla sér menntunar á meistarastigi, hvaða hvatar eru til námsins og hvert hlutverk kennara og leiðsögn er í námsferlinu. Rannsóknin miðar einnig að því að greina viðhorf og reynslu þessara nemenda með sérstöku tilliti til landfræðilegar staðsetningar, þ.e. dreifbýli á  norðurslóðum.
Rannsakendur:
Rannsókn er samstarf milli Háskólans á Akureyri og The Arctic University of Norway í Alta. Þátttakendur eru dr. Mirjam Harkestad Olsen frá The Arctic University of Norway í Alta og dr. Kristín Aðalsteinsdóttir og dr. Hermína Gunnþórsdóttir við kennaradeild HA.
Styrkir: Rannsóknin er styrkt af Arctic Studies –Sience Cooperation FUND. Stofnað var til sjóðsins af Utanríkisráðuneytum Íslands og Noregs
Áætluð verklok: 2016
Birtingar: Ritrýndar greinar og ráðstefnuerindi eru í vinnslu.

 Upp


Samfélagslegt hlutverk háskóla(SAMHÁ) Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á ýmsa þætti sem varða starfshætti í háskólum og tengslum þeirra við samfélagið. Í kjölfar hruns fjármálakerfisins var kallað eftir ítarlegri endurskoðun og mati á margvíslegum gildum sem samfélagið er reist á. Rannsókn þessi leitar m.a. svara við eftirfarandi: 1. Hvernig skilja íslenskir háskólakennarar og sérfræðingar starfsskyldur sínar og fagmennsku? og 2. Hvernig skilja íslenskir háskólakennarar samfélag sitt og samfélagslegar skyldur? Rannsóknin nálgast þessar grundvallar rannsóknarspurningar bæði með megindlegum aðferðum og eigindlegum. Í rannsókninni verður leitað svara við því hvort íslenskir háskólar byggi í reynd á sömu fræðilegu- og siðferðilegu forsendum og viðurkenndir háskólar á Vesturlöndum gera sbr. Magna Charta yfirlýsinguna frá 1989 og sjónum m.a. beint að umfangi kostunar á fræðastarfi og áhrifum hennar.
Rannsakendur: Dr. Amalía Björnsdóttir dósent við HÍ, Auður Pálsdóttir aðjúnkt við HÍ, Hjalti Jóhannesson aðstoðarforstöðumaður RHA, Dr. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson prófessor við HA og HÍ, Dr. Sigurður Kristinsson forseti Hug- og félagsvísindasviðs HA og Trausti Þorsteinsson lektor við HA.
Styrkir: Verkefnið er styrkt af Rannsóknastofu um háskóla og Rannsóknasjóði HA
Áætluð verklok: Ekki skilgreind
BirtingarGuðrún Þorsteinsdóttir og Trausti Þorsteinsson. (2014). Gildi náms- og kynnisferða grunnskólakennara fyrir starfsþróun. Stjórnmál og stjórnsýsla 10(2), 523-544.

Sigurður Kristinsson, Hjalti Jóhannesson og Trausti Þorsteinsson. (2014). Samfélagslegt hlutverk háskóla – Kostun í íslenskum háskólum. Stjórnmál og stjórnsýsla 10(2), 473-498.

Trausti Þorsteinsson, Sigurður Kristinsson, Hjördís Sigursteinsdóttir. (2012). Samfélagslegt hlutverk háskóla. Stjórnmál og stjórnsýsla 8(2), 281–302.

Trausti Þorsteinsson, Sigurður Kristinsson og Hjördís Sigursteinsdóttir. (2012). Samfélagslegt hlutverk háskóla. Stjórnmál og stjórnsýsla 2(2), bls. 281–302.
Erindi flutt á: Ráðstefnu um íslenska þjóðfélagsfræði, Menntakviku og Þjóðaspegli

Upp


Starfsaðstæður nýliða í kennslu (grunn- og framhaldsskólastigið). Norræn samanburðarrannsókn á starfsaðstæðum nýliða í kennslu á grunn- og framhaldsskólastigi. Þátttakendur eru, auk Íslands (HA), Háskólinn í Árósum Danmörk, Háskólinn í Gautaborg í Svíþjóð, Háskólinn í Turku í Finnland og Óslóarháskóli í Noregur, en rannsókninni er stýrt frá síðasttalda háskólanum. Markmið þessarar rannsóknar er að auka þekkingu og skilning á því hvað þarf til að nýr kennari fái þann stuðning sem honum er nauðsynlegur til faglegrar starfsþróunar. Einnig er ætlunin að grafast fyrir um hvað hvetur nýliða í kennarastétt í starfi og fá mynd af þeim stuðningi sem kennurum á fyrstu árum í kennslu býðst á Norðurlöndum. Vænst er að niðurstöður rannsóknarinnar geti nýst yfirvöldum menntamála, skólayfirvöldum, kennaramenntastofnunum og kennurum til stefnumótunar. Ef svarhlutfall verður gott hér á landi getur fengist mikilvægur samanburður á grunni þeirra gagna sem verður samanburðarhæfur við hin Norðurlöndin. Gagnaöflun fer fram með þeim hætti að spurningalisti er sendur til þeirra kennara sem hafa minna en fjögurra ára starfsreynslu. Hérlendis er ekki að finna miðlægar upplýsingar um starfsreynslu kennara. Til að finna markhópinn var haft samband við alla skólastjóra grunn- og framhaldsskóla og þeir beðnir að gefa upplýsingar um hverjir af starfandi kennurum skóla þeirra eru að kenna sitt fyrsta, annað eða þriðja ár. Á þann hátt fengust upplýsingar um 293 nöfn og netföng kennara sem fá sendan rafrænan spurningalista. Gagnasöfnun lauk í Noregi og Danmörku og í Finnlandi á haustmisseri 2013, en í Svíþjóð og hér á landi fer gagnasöfnun fram á vormisseri 2014.
Frekari upplýsingar um norrænu rannsóknina má fá á slóðinni: http://www.uv.uio.no/ils/english/research/projects/nordment/
Aðsetur verkefnisins er: Department of Teacher Education and school Research við Óslóarháskóla
Verkefnisstjóri: Eyvind Elstad
Þátttakendur hér á landi: María Steingrímsdóttir dósent HA og Guðmundur Engilbertsson lektor HA.
Áætluð verklok: Ekki skilgreind.
Birtingar: Engar enn sem komið er.

Upp


Veltur nám og þátttaka nemenda með sérþarfir í grunnskólum á mæðrum þeirra? Aðdragandi og samhengi rannsóknarinnar er eftirfarandi: Íslensk menntastefna er byggð á hugmyndum um skóla án aðgreiningar, sem felur m.a. í sér jafnrétti og jöfn tækifæri til náms. Þrátt fyrir það er ýmislegt sem bendir til þess að vera nemenda með sérþarfir í íslenskum skólum sé háð styrk, gildismati og framkomu mæðra þeirra. Gögn úr doktorsrannsókn rannsakanda(júní 2014) sýna að kennarar nemenda með sérþarfir telja að mæður barna með fötlun eða námslegar sérþarfir geti haft afgerandi áhrif á hvernig börnum þeirra vegnar í almennum skólum og hvort þau yfirleitt „geti“ nýtt sér almenna skólann. Niðurstöðurnar vekja frekari spurningar og tilefni til að rannsaka frekar þátt mæðra (og í raun feðra einnig en ekki að þessu sinni) í námi nemenda sem teljast þurfa viðbótarstuðning til náms. Rannsóknin er eigindleg og fræðilegur grundvöllur sóttur í kenningar um félagslegar mótunarkenningar og femínisma sem jafnframt verður sá rammi sem notast verður við í greiningu og túlkun gagna. Rannsóknin felst í því að taka viðtöl við 10-20 mæður nemenda (í nokkrum skólum á Íslandi völdum af handahófi) með skilgreindar sérþarfir og stunda nám í almennum grunnskólum. Viðtölin fóru fram í janúar og febrúar 2015.
Þátttakandi: Hermína Gunnþórsdóttir lektor HA
Styrkir: Rannsóknin hlaut styrk úr Rannsóknarsjóði Háskólans á Akureyri
Áætluð verklok: 2016
Birtingar: Ritrýndar greinar og ráðstefnuerindi eru í vinnslu

 

Námssviđ

Heilbrigđisvísindasviđ

Viđskipta- og Raunvísindasviđ

Fjarnám

Framhaldsnám

Hug- og félagsvísindasviđ

Rannsóknastofnanir

Háskólinn á akureyri

Norđurslóđ 2         600 Akureyri, Iceland         ""unak@unak.is         S. 460 8000 

Ekki missa af neinu

Fylgdu okkur eđa deildu