Valmynd Leit

Ávarp rektors

Eyjólfur GuðmundssonHáskólinn á Akureyri var stofnaður árið 1987 og hefur frá þeim tíma verið í stöðugri uppbyggingu og þróun sem ein af megin menntastofnunum landsins.  

Starfsmenn háskólans telja það hlutverk sitt að skapa samfélag þar sem nemendum líður vel í persónulegu umhverfi sem örvar þá til skapandi verka. Námið fer yfirleitt fram í litlum hópum þar sem hægt er að halda uppi góðri þjónustu við hvern og einn nemanda. Áhersla er lögð á að nemendur hafi góðan aðgang að kennurum sínum þannig að þeir í sameiningu geti stutt við nám nemandans í kröfuhörðu umhverfi. Brautskráðir nemendur Háskólans á Akureyri bera honum gott vitni og eru ánægðir með það nám og reynslu sem þeir hafa fengið.

Akureyri er háskólabær þar sem nemendur eru áberandi hluti af bæjarlífinu. Þeir eru mikilvægur hlekkur í uppbyggingu háskólasamfélags við Eyjafjörð og um landið allt. Allar vegalengdir eru stuttar á Akureyri og þjónusta því alltaf nálæg. Háskólinn á Akureyri er staðsettur á glæsilegu háskólasvæði í hjarta Akureyrar. Frítt er í strætisvagna, íþróttalíf er fjörugt og íþróttaaðstaða góð. Aðstaða til vetraríþrótta er eins og best verður á kosið með skautahöll og skíðasvæði í nokkurra mínútna akstursfjarlægð. Menningarlíf er blómlegt, sérstaklega hvað verðar tónleika og leiklist. Stúdentagarðar háskólans eru á þremur stöðum á Akureyri en einnig leigja nemendur sér húsnæði víðsvegar um bæinn.

Háskólinn á Akureyri veitir nemendum sínum einstakt tækifæri til að taka virkan þátt í nýsköpun þekkingar á fjölmörgum sviðum og þá sérstaklega sviðum sem á komandi árum munu takast á við mikilvægustu verkefni íslensks samfélags. Má þar nefna sjálfbæra nýtingu auðlinda á norðurslóðum, uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og nýja hugsun í heilbrigðisþjónustu, breytingar á menntakerfinu frá leikskólastiginu til framhaldsskóla og almenna samfélagsrýni í gegnum fjölmiðlun. Með því að stunda þitt nám við Háskólann á Akureyri öðlast þú færni í að gegna fjölbreyttum störfum í framtíðinni á sama tíma og þú tekur beinan þátt í að byggja upp íslenskt samfélag. Við hlökkum til að sjá þig!

Dr. Eyjólfur Guðmundsson, rektor.

Námssviđ

Heilbrigđisvísindasviđ

Viđskipta- og Raunvísindasviđ

Fjarnám

Framhaldsnám

Hug- og félagsvísindasviđ

Rannsóknastofnanir

Háskólinn á akureyri

Norđurslóđ 2         600 Akureyri, Iceland         ""unak@unak.is         S. 460 8000 

Ekki missa af neinu

Fylgdu okkur eđa deildu