Laust starf: Doktorsnemi við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri

Háskólinn á Akureyri (Mynd: Auðunn Níelsson)

Laus er til umsóknar staða doktorsnema (PhD) við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri á sviði félagsfræði menntunar með áherslu á kennslufræði og rannsóknir á námi og kennslu í grunnskólum (kennslustofurannsóknir). Rannsóknarverkefni nemans verður innan ramma rannsóknarinnar „Gæði kennslu á Norðurlöndum“ (Quality in Nordic Teaching – QUINT) en hún beinist að gæðum kennslu á unglingastigi í grunnskólum á Norðurlöndum. Rannsóknin er styrkt af NordForsk og tilheyrir norrænu öndvegissetri sem stofnað var 2018. Staðan er til þriggja ára og áætlað er að ráðið verði í hana frá 1. september 2019. Starfshlutfall er 100%. Starfsstöð doktorsnemans er við Háskólann á Akureyri.

Lýsing á verkefninu

Markmið QUINT-setursins er að rannsaka gæði kennslu í íslensku, stærðfræði og samfélagsfræði á unglingastigi í norrænum grunnskólum, einkum með myndbandsupptökum og vettvangsathugunum. Gögnin verða jafnframt nýtt í starfsþróun kennara og í kennaramenntun. Enda þótt doktorsnemi gangi inn í mótað rannsóknarverkefni, felur það engu að síður í sér sveigjanleika en gerir kröfur að neminn afmarki rannsóknarsvið sitt innan ramma verkefnisins og þannig að það falli að markmiðum QUINT-setursins. Rannsóknarverkefni doktorsnemans verður enn fremur að byggjast á samanburði á gögnum frá að minnsta kosti tveimur þátttökulandanna og fela í sér samstarf við rannsakendur í að minnsta kosti einum af þátttökuháskólunum í QUINT utan Íslands. Umsækjendum er bent á að kynna sér rannsóknaráform QUINT-setursins á vef þess, og taki mið af þeim í greinargerð um rannsóknaráform. Gert er ráð fyrir að doktorsritgerð verði skilað í formi alþjóðlegra ritrýndra fræðigreina.

Hlutverk doktorsnemans

Neminn gengur inn í réttindi og skyldur er fylgja því að vera doktorsnemi við Háskólann á Akureyri eins og þeim er lýst á vef HA. Doktorsneminn mun vinna undir leiðsögn leiðbeinenda á vegum öndvegissetursins QUINT og í nánu samstarfi við rannsakendur og stjórnendur þess. Hlutverk doktorsnemans felst einkum í greiningu og úrvinnslu gagna og fræðilegum skrifum, ásamt leiðbeinendum, og eftir atvikum öðrum rannsakendum sem tengjast verkefni hans. Ætlast er til þess að doktorsneminn taki virkan þátt í starfsemi QUINT-setursins og ráðstefnum og sumarnámskeiðum fyrir doktorsnema á vegum þess, auk samstarfs við rannsakendur utan Íslands. Einnig er gerð krafa um að neminn hafi samstarf við rannsakendur í að minnsta kosti einum af þátttökuháskólunum í QUINT utan Íslands. Kennsla við kennaradeild HA, sem samsvarar 20%–25% af kennsluskyldu aðjúnkts (u.þ.b. 15% starfshlutfall), er hluti af starfsskyldum doktorsnemans.

Hæfnikröfur

  • Umsækjendur þurfa að hafa meistarapróf á sviði menntavísinda með áherslu á félagsfræði menntunar, kennslufræði eða rannsóknir á námi og kennslu í grunnskólum (kennslustofurannsóknir)
  • Reynsla af kennslu og/eða öðrum fagstörfum í grunnskólum er æskileg
  • Umsækjendur verða að hafa góð tök á íslensku og ensku, bæði töluðu og rituðu máli
  • Góð samskiptahæfni og geta til að vinna sjálfstætt og í teymi nauðsynleg
  • Umsækjendur þurfa að hafa aðferðafræðilega þekkingu sem nýtist í verkefninu, áhuga á rannsóknum á skólastarfi og leiðum til að auka gæði þess
  • Umsækjendur þurfa enn fremur að uppfylla inntökuskilyrði í doktorsnám við Háskólann á Akureyri

Umsóknarferli

Umsókn um doktorsnemastöðuna þarf að fylgja rökstudd greinargerð með fræðilegum tengingum um hvernig umsækjandinn hyggst afmarka verkefni sitt innan ramma QUINT-rannsóknarinnar (2500–3000 orð). Enn fremur skulu fylgja umsókninni ferilskrá (CV), prófskírteini og nöfn tveggja meðmælenda (nafn, tengsl við umsækjenda, tölvupóstfang og símanúmer).

Þegar umsóknir hafa verið afgreiddar þarf sá umsækjenda sem boðin verður staðan að sækja um doktors¬nám við Háskólann á Akureyri í samvinnu við væntanlegan aðalleiðbeinanda og hljóta samþykki doktorsnámsráðs áður en hægt verður að ganga frá ráðningu hans. Skila þarf umsókn á umsóknareyðublaði á vef HA. Miðstöð doktorsnáms við HA (doktorsnam@unak.is) veitir leiðsögn við gerð umsóknar, sé þess óskað.

Umsóknarfrestur er 23. apríl 2019

Umsóknir skal senda ásamt fylgigögnum á skrifstofu rektors á netfangið starfsumsokn@unak.is

Laun eru samkvæmt kjarasamningi Félags háskólakennara við Háskólann á Akureyri.

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðningu í starfið þegar ákvörðun hefur verið tekin. Háskólinn á Akureyri áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Nánari upplýsingar

Birna María Svanbjörnsdóttir (birnas@unak.is), en hún leiðir QUINT-verkefnið fyrir hönd HA. Auk hennar veita Hermína Gunnþórsdóttir (hermina@unak.is) og Rúnar Sigþórsson (runar@unak.is) nánari upplýsingar.

Háskólinn á Akureyri stuðlar að jafnrétti kynjanna og hvetur konur jafnt sem karla til að sækja um laus störf