Laust starf: Doktorsnemi í heilbrigðisvísindum

Laus er til umsóknar 50% staða doktorsnema (PhD) í heilbrigðisvísindum á heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri á sviði sálrænna áfalla og ofbeldis. Um er að ræða vinnu við verkefnið Að leita sér hjálpar eftir kynbundið ofbeldi: Hindrandi og hvetjandi þættir meðal þolenda á Íslandi (e. Help-Seeking after Gender-Based Violence: Sociocultural Barriers and Facilitators among survivors in Iceland). Doktorsverkefnið er hluti af alþjóðlegu rannsóknarverkefni, International Cross-Cultural Comparison of Meaning, Help-Seeking and Trauma Recovery after Gender-Based Violence, sem tólf lönd standa saman að og er stýrt af dr. Denise Saint Arnault við Michigan-háskóla í Bandaríkjunum. Doktorsverkefnið er styrkt af Jafnréttissjóði, Rannsóknasjóði Háskólans á Akureyri og heilbrigðisvísindasviði HA. Staðan er til tveggja ára og áætlað er að ráðið verði í hana frá 1. september, 2021. Starfstöð doktorsnemans er við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri.

Helstu verkefni og ábyrgð

Doktorsneminn mun vinna undir leiðsögn dr. Sigríðar Halldórsdóttur, prófessors við heilbrigðisvísindasvið HA og þeirra er að rannsókninni koma. Meginmarkmið verkefnisins er að kanna hvað það er sem annars vegar hindrar og hins vegar stuðlar að því að þolendur kynbundis ofbeldis á Íslandi leiti sér hjálpar. Markmið verkefnisins munu tengjast megin rannsóknarspurningum verkefnisins sem fjalla m.a. um kynbundið ofbeldi á Íslandi og áhrif félags- og menningarlegra þátta á að leita sér hjálpar. Blandaðar aðferðir verða notaðar við gagnaöflun, m.a. spurningakönnun á netinu og viðtöl við einstaklinga sem hafa reynslu af kynbundnu ofbeldi. Skyldur doktorsnemans felast í gagnasöfnun, skráningu og greiningu gagna og fræðilegum skrifum ásamt aðalleiðbeinanda og þeim sem tengjast verkefninu. Einnig er gert ráð fyrir að doktorsneminn komi að öflun frekari styrkja vegna rannsóknarinnar. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að neminn gangi inn í réttindi og skyldur er fylgja því að vera doktorsnemi við Háskólann á Akureyri eins og þeim er lýst á vef HA (https://www.unak.is/is/namid/namsframbod/framhaldsnam/doktorsnam).Gert er ráð fyrir að doktorsritgerð verði skilað í formi alþjóðlegra ritrýndra fræðigreina. 

Hæfniskröfur

 • Umsækjendur þurfa að hafa meistarapróf á sviði heilbrigðisvísinda á viðkomandi sérsviði með að minnsta kosti 1. einkunn.
 • Æskilegt er að doktorsneminn hafi góð tök á ólíkum aðferðafræðilegum nálgunum þar sem notaðar verða blandaðar aðferðir í verkefninu.
 • Algjört skilyrði er að doktorsneminn sé fullfær um að skrifa, lesa og tjá sig á ensku.
 • Æskilegt er að umsækandi búi yfir næmni í samskiptum við einstaklinga sem hafa orðið fyrir sálrænum áföllum vegna ofbeldis. 
 • jafnframt þarf umsækjandi að hafa góða samskiptahæfni og geta starfað sjálfstætt.
 • Hann þarf ennfremur að uppfylla inntökuskilyrði í doktorsnám við Háskólann á Akureyri.

Umsókn skal fylgja:

Umsóknarferlið er tvíþætt:

Í fyrsta lagi er umsókn um doktorsnemastöðu í ofangreindu rannsóknarverkefni. Þeirri umsókn þurfa að fylgja eftirfarandi gögn:

 • Greinargerð þar sem umsækjandi lýsir hvernig hann uppfyllir skilyrði umsóknarinnar, hvers vegna hann hefur áhuga á að vinna þetta verkefni og hugmyndir umsækjanda um sitt framlag til verkefnisins (hámark 2 síður eða um 1000 orð)
 • Ferilskrá (CV)
 • Prófskírteini

Í öðru lagi þarf sá umsækjenda sem boðin verður doktorsnemastaðan að sækja um doktorsnám við Háskólann á Akureyri í samvinnu við væntanlegan aðalleiðbeinanda og hljóta samþykki doktorsnámsráðs áður en hægt verður að ganga frá ráðningu hans. Skila þarf umsókn á umsóknareyðublaði:

 • Á vef HA: https://www.unak.is/is/namid/namsframbod/framhaldsnam/doktorsnam.
 • Miðstöð doktorsnáms við HA (doktorsnam@unak.is) veitir leiðsögn við gerð umsóknar.

Umsóknarfrestur er til og með 3. ágúst 2021

Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Félag háskólakennara á Akureyri hafa gert.

Við ráðningu í störf við Háskólann á Akureyri er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans. Jafnframt er vakin athygli á málstefnu Háskólans á Akureyri. Gert er ráð fyrir að umsækjandi geti hafið störf 1. september, 2021.

Öllum umsóknum um doktorsnemastöðuna verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin.

Nánari upplýsingar veitir

Smelltu hér til að sækja um starfið