Laust starf: Verkefnastjóri við Hjúkrunarfræðideild

Við Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri (HA) er laust til umsóknar 50% starf verkefnastjóra í tengslum við þróun kennslu og náms og val á nemendum í hjúkrunarfræði. Ráðið verður í starfið til tveggja ára byggt á styrk frá Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu sem veittur var HA og Háskóla Íslands (HÍ) í þessu samhengi.

Markmið með starfi verkefnastjórans er meðal annars að greina hvaða þættir geti spáð fyrir um styrkleika og áhugahvöt stúdenta í hjúkrunarfræði í námi og í starfi að námi loknu, í því skyni að bæta nýtingu námsplássa og lágmarka brottfall að námi loknu. Í starfinu felst gagnaöflun, úrvinnsla og túlkun gagna, skýrslugerð og kynning á helstu niðurstöðum.

Starfstöð verkefnastjórans er á Akureyri. Næsti yfirmaður er deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar.

Helstu verkefni og ábyrgð

 • Dagleg umsjón með umsýslu verkefnis fyrir hönd HA.
 • Gagnaöflun og samantekt um aðferðir við inntöku í sambærilegt nám í öðrum löndum.
 • Öflun, greining og vinnsla tölfræðilegra og fræðilegra gagna.
 • Vinna við endurskoðun námskrár í hjúkrunarfræði.
 • Verkefnastjóri vinnur náið með verkefnastjóra HÍ, starfólki HA og HÍ sem koma að verkefninu.
 • Skýrslugerð og fundahald varðandi verkefnið.

Hæfniskröfur

 • Háskólanám sem nýtist í starfi, að lágmarki meistaragráða af heilbrigðisvísindasviði.
 • Nám og/eða reynsla í verkefnisstjórnun nauðsynleg.
 • Reynsla af gagnaöflun og vinnslu gagna nauðsynleg.
 • Þekking á ferla- og/eða greiningarvinnu telst kostur.
 • Þekking á rannsóknatengdu námi í heilbrigðisvísindum og námsskrárgerð telst kostur.
 • Góð tölvukunnátta og gott vald á upplýsingatækni og hæfni til að tileinka sér nýjungar á því sviði.
 • Gerð er krafa um frumkvæði, skipulagshæfileika, vönduð og sjálfstæð vinnubrögð.
 • Gott vald á íslensku og ensku, jafnt töluðu sem rituðu máli. Kunnátta í Norðurlandamáli er kostur.
 • Góð samstarfshæfni, lipurð í mannlegum samskiptum ásamt góðri færni í að miðla þekkingu í rituðu og töluðu máli.

Eftirfarandi gögn skulu fylgja umsókn:

 • Ítarleg náms- og starfsferilskrá.
 • Staðfest afrit af prófskírteinum sem við eiga frá námi og loknum námskeiðum, á íslensku eða ensku.
 • Kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni umsækjanda í starfið.
 • Tilnefna skal a.m.k. tvo meðmælendur og er æskilegt að einn þeirra sé næsti yfirmaður í núverandi eða fyrra starfi umsækjanda.

Umsóknarfrestur er til og með 12.08.2024

Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Félag háskólakennara á Akureyri hafa gert.

Ófullnægjandi umsóknir eru ekki teknar til greina. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Umsókn getur gilt í sex mánuði eftir að umsóknarfresti lýkur, sbr. 2. gr. reglna nr. 464/1996. Háskólinn á Akureyri áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Háskólinn á Akureyri stuðlar að jafnrétti kynjanna og hvetur öll kyn til að sækja um laus störf.

Starfshlutfall er 50% til 2ja ára.

Æskilegt að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.

Starfshlutfall er 50%.

Nánari upplýsingar veitir

Sigríður Sía Jónsdóttir, deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar, siaj@unak.is 

Sækja um starf