Laust starf: Rannsóknastjóri

Háskólinn á Akureyri leitar að rannsóknastjóra. Um er að ræða fullt starf við Háskólann á Akureyri. Starfið er við Miðstöð doktorsnáms og stjórnsýslu rannsókna sem heyrir undir skrifstofu rektors. Miðstöðin er persónulegur vinnustaður sem býður upp á fjölbreytt verkefni og góðan starfsanda. Rannsóknastjóri vinnur með öllum einingum háskólans. Næsti yfirmaður er forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms. Starfsstöðin er á háskólasvæðinu á Akureyri. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.

Helstu verkefni og ábyrgð

Hlutverk rannsóknastjóra er að styðja við og leiðbeina því starfsfólki sem stundar rannsóknir með það í huga að m.a. byggja upp rannsóknasamstarf, styðja við umsóknir í rannsóknasjóði og stuðla þannig að aukinni virkni og bættum árangri í rannsóknum við HA. Jafnframt að hafa heildaryfirsýn yfir þau rannsóknaverkefni sem eru í gangi á hverjum tíma. Rannsóknastjóri miðlar upplýsingum varðandi umsóknir í samkeppnissjóði og tækifæri í rannsóknum. Krafa er um hæfni í greiningum og túlkun gagna um rannsóknir.

Hæfniskröfur

 • Doktorspróf sem nýtist starfi.
 • Þekking og áhugi á rannsóknum og reynsla af rannsóknarumhverfi er nauðsynleg.
 • Þekking og/eða reynsla af starfsemi háskóla/rannsóknastofnana er nauðsynleg og reynsla af opinberri stjórnsýslu er kostur.
 • Þekking á styrkjakerfum rannsókna, bæði innanlands og alþjóðlega er nauðsynleg.
 • Reynsla af verkefnastjórnun og mati á rannsóknaverkefnum er kostur.
 • Krafist er mjög góðrar hæfni í mannlegum samskiptum ásamt frumkvæði, metnaði, sjálfstæði og skipulagi í vinnubrögðum.
 • Góð færni í íslensku og ensku er nauðsynleg og færni í einu skandinavísku tungumáli er æskileg.
 • Góð almenn tölvukunnátta og þekking á framsetningu tölulegra gagna er nauðsynleg.
 • Þekking á íslensku háskólasamfélagi er kostur.

Umsókn skal fylgja:

 • Greinargott yfirlit yfir náms- og starfsferil.
 • Staðfest afrit af viðeigandi prófskírteinum.
 • Kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni umsækjanda í starfið.
 • Tilnefna skal a.m.k. tvo meðmælendur og er æskilegt að annar þeirra sé næsti yfirmaður í núverandi eða fyrra starfi umsækjanda.

Umsóknarfrestur er til og með 7. desember 2021

Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Félag háskólakennara á Akureyri hafa gert.

Ófullnægjandi umsóknir eru ekki teknar til greina. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Umsókn getur gilt í sex mánuði eftir að umsóknarfresti lýkur. Háskólinn á Akureyri áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Nánari upplýsingar veitir

Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, gudrunth@unak.is og 460 8650

Smelltu hér til að sækja um starfið