Reglur Háskólans á Akureyri um viðurlög við ritstuldi

NR. 757/2006

SAMÞYKKTAR Í HÁSKÓLARÁÐI 29.5.2006

Með breytingum nr. 546/2009, nr. 791/2020 og nr. 794/2021

vefútgáfa síðast uppfærð 17.08.2021

Prentgerð (pdf)
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan
 og í PDF skjali gildir PDF skjalið

EFNISYFIRLIT

 1. Gildissvið og skilgreiningar
 2. Almennt bann við ritstuldi
 3. Almenn skylda til að vísa til heimilda
 4. Brot gegn banni við ritstuldi
 5. Viðurlög við ritstuldi
 6. Siðanefnd
 7. Kvörtun um ritstuld til siðanefndar
 8. Málsmeðferð fyrir siðanefnd
 9. Ákvarðanir og tilmæli siðanefndar
 10. Gildistaka

 

I. KAFLI

Skilgreiningar og meginreglur

1. gr. Gildissvið og skilgreiningar

 1. Með ritstuldi er í þessum reglum átt við þá háttsemi þegar nemandi hagnýtir sér í heimildarleysi hugverk annarra eða líkt og væri eigið hugverk. T.d. með því að afrita beint eða óbeint texta úr ritsmíð annars og setja í sína eigin án þess að það komi fram.
 2. Með hugverki er í þessum reglum átt við hvers lags áþreifanlegt eða óáþreifanlegt höfundarverk á borð við bækur, greinar, ritgerðir, aðrar ritsmíðar, myndir eða annað jafnt á prenti, tölvutæku formi eða á annars konar formi og tilheyrir tilteknum rétthafa þess.

2. gr. Almennt bann við ritstuldi

 1. Ritstuldur í hvaða formi sem er telst með öllu óheimil háttsemi í námi við Háskólann á Akureyri og varðar agaviðurlögum af hálfu skólans.

3. gr. Almenn skylda til að vísa til heimilda

 1. Sá sem hagnýtir sér hugverk annarra í eigin ritsmíð eða öðru hugverki í þágu náms við skólann skal í sérhverju tilviki geta um hugverkið með því að vísa til heimilda.
 2. Vísun til heimilda getur ýmist átt sér stað í formi tilvísana neðanmáls, aftanmáls eða með öðrum viðurkenndum hætti á viðkomandi fræðasviði.
 3. Deildir skólans skulu uppfræða nemendur um rétta heimildanotkun og um þessar reglur. Sé nemandi óviss um rétta beitingu þeirra heimilda sem unnið er með í skólastarfinu skal leita leiðbeininga hjá viðkomandi kennara.

II. KAFLI

Brot gegn banni við ritstuldi og viðbrögð við þeim

4. gr. Brot gegn banni við ritstuldi

 1. Sá sem sannarlega hefur orðið uppvís að ritstuldi af stórfelldu gáleysi telst hafa sýnt af sér hegðun sem er ámælisverð háskólafólki.
 2. Sá sem sannanlega hefur orðið uppvís að ritstuldi í vondri trú og af ásetningi telst hafa sýnt af sér hegðun sem er ósæmileg háskólafólki.

5. gr. Viðurlög við ritstuldi

 1. Ritstuldur sem jafna má til hegðunar sem telst vera ámælisverð háskólafólki skal að jafnaði leiða til áminningar af hálfu [forseta fræðasviðs]1 og til skerðingar á einkunn fyrir viðkomandi námsþátt samkvæmt mati viðkomandi kennara.
 2. Ritstuldur sem jafna má til hegðunar sem telst vera ósæmileg háskólafólki skal að jafnaði leiða til áminningar af hálfu rektors og til ógildingar á þátttöku nemandans í viðkomandi námskeiði frá upphafi.
 3. Reglur þessar taka ekki til óverulegra mistaka við meðferð heimilda.
 4. Ítrekuð brot geta sætt frekari viðurlögum af hálfu rektors, þ.m.t. brottvísun úr skóla

1) Breytt með reglum nr. 546/2009

III. KAFLI

Kærur og málsmeðferð vegna ætlaðs ritstuldar

6. gr. Siðanefnd

 1. [Við Háskólann á Akureyri skal starfrækt siðanefnd sem fjallar um kærur vegna meintra tilvika um ritstuld [Formaður siðanefndar er skipaður af háskólaráði samkvæmt tilnefningu rektors. Félag háskólakennara á Akureyri og fulltrúar Félags prófessora sem starfa við Háskólann á Akureyri skipa hvort um sig einn nefndarmann. Þegar siðanefnd berst erindi sem kallar á sérstaka þekkingu getur hún óskað eftir því við rektor að skipaðir verði tveir fulltrúar að auki til þess að fjalla um erindið. Í umboði háskólaráðs skipar rektor þessa tvo fulltrúa að fengnum tilnefningum formanns nefndarinnar. Þegar um ræðir erindi sem snertir nemendur skal kalla til tvo fulltrúa sem stúdentaráð SHA tilnefnir.]
 2. Siðanefnd starfar samkvæmt starfsreglum Siðanefndar, sbr. 5.3. Siðareglna Háskólans á Akureyri, einnig reglna um námsmat fyrir Háskólann á Akureyri nr. 921/2018 og lögum um háskóla nr. 63/2006.]1

1) Breytt með reglum nr. 791/2020.
2) Breytt með reglum nr. 794/2021.

7. gr. Kvörtun um ritstuld til siðanefndar

 1. Kennurum ber almennt að hafa eftirlit með því að ekki sé brotið gegn banni við ritstuldi og ber að beina kvörtun um slík meint tilvik til siðanefndar.
 2. Að baki kvörtun skal búa hlutlæg könnun kennara á námsgögnum frá nemanda og skal þeim framvísað ásamt með stöðluðu kæruformi til ritara siðanefndar.
 3. Kennara sem beinir kvörtun til siðanefndar ber að tilkynna [forseta fræðasviðs]1 um málið.

1) Breytt með reglum nr. 546/2009

8. gr. Málsmeðferð fyrir siðanefnd

 1. Siðanefnd skal taka kvörtun um ritstuld fyrir svo skjótt sem auðið er á fundi þar sem fjallað er um málið og skal það þá fá tiltekið málsnúmer til auðkenningar á því.
 2. Siðanefnd skal leggja áherslu á að upplýsa mál m.a. með því að óska eftir frekari upplýsingum frá kennara ef þurfa þykir. Áskilið er að haft sé samband við nemanda sem kvörtun beinist að, sem sé þá upplýstur um efni kvörtunar og fái að tjá sig um málið.
 3. Að lokinni rannsókn skal siðanefnd kveða upp skriflegan úrskurð. Í úrskurði skal greina frá eftirfarandi atriðum og kaflaskipt í þessari röð:
  1. dagsetning úrskurðar, málsnúmer, að hverjum kvörtunin beinist og hvenær hún barst nefndinni,
  2. tegund máls – þ.e. hvert sér umkvörtunarefnið í einni setningu,
  3. helstu málavextir og málsmeðferð sem fram hefur farið,
  4. rökstuðningur fyrir niðurstöðu og þ.m.t. hvað telst vera nægilega sannað og hvernig,
  5. niðurstaða í úrskurðarorði auk undirritunar nefndarmanna sem stóðu að niðurstöðu.

9. gr. Ákvarðanir og tilmæli siðanefndar

 1. Siðanefnd skal í úrskurðarorði ætíð skera úr um það hvort hin kærða háttsemi teljist sannarlega vera ritstuldur og um það hvort um ámælisverða (gáleysisbrot) eða ósæmilega (ásetningsbrot) háttsemi hafi þá verið að ræða.
 2. Sé um gáleysisbrot að ræða skal siðanefnd í úrskurðarorði alla jafnan mælast til þess að [forseta fræðasviðs]1 veiti áminningu og að viðkomandi kennari virði brotið til lækkunar fyrir viðkomandi námsþátt að tiltölu við brotið en mat á einkunn er ætíð kennarans.
 3. Sé um ásetningsbrot að ræða skal siðanefnd í úrskurðarorði alla jafnan mælast til þess að rektor veiti áminningu og að þátttaka nemandans í námskeiðinu verði ógilt frá upphafi.
 4. Siðanefnd kemur úrskurðum á framfæri við viðkomandi [forseta fræðasviðs]2 sem annast nauðsynleg samskipti við viðkomandi nemanda, kennara og við skrifstofu rektors.
 5. Málsefni fyrir siðanefnd eru trúnaðarmál hlutaðeigandi og ríkir um þau þagnarskylda.
 6. Að öðru leyti vísast til gildandi laga og reglna um Háskólann á Akureyri.

1) Breytt með reglum nr. 546/2009
2) Breytt með reglum nr. 546/2009

10. gr. Gildistaka

Reglur þessar skal endurskoða að þremur árum liðnum frá samþykkt þeirra.

Reglur þessar eru settar á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og öðlast þegar gildi.

Háskólanum á Akureyri, 29. maí 2006.

Þorsteinn Gunnarsson, rektor

 

Reglur nr. 757/2006 samþykktar í háskólaráði 29. maí 2006.
Breytingar nr. 546/2009 samþykktar í háskólaráði 27. maí 2009.
Breytingar nr. 791/2020 samþykktar í háskólaráði 26. júní 2020.
Breytingar nr. 794/2021 samþykktar í háskólaráði 16. júní 2021.