Reglur um stjórnskipulag Heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri

NR. 812/2013

SAMÞYKKTAR Í HÁSKÓLARÁÐI 23.08.2013

Með breytingum nr. 785/2020 og nr. 1312/2021

vefútgáfa síðast uppfærð 09.12.2021

Prentgerð (pdf)
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan
 og í PDF skjali gildir PDF skjalið

EFNISYFIRLIT

  1. Helstu markmið og stefna
  2. Deildir og brautir fræðasviðsins
  3. Skilgreiningar
  4. Deildafundur heilbrigðisvísindasviðs
  5. Deildaráð heilbrigðisvísindasviðs
  6. Forseti heilbrigðisvísindasviðs, deildaformenn og deildarfundir
  7. Náms- og matsnefndir
  8. Gildistaka og endurskoðun

I. KAFLI Markmið og stefna

1. gr. Helstu markmið og stefna

Meginmarkmið heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri er að bjóða upp á háskólanám og standa fyrir rannsóknum í heilbrigðisvísindum, þar með talið hjúkrunarfræði, iðjuþjálfunarfræði og öðrum greinum heilbrigðisvísinda.

II. KAFLI Skipulagseiningar

2. gr. Deildir og brautir fræðasviðsins

Heilbrigðisvísindasvið skiptist í þrjár deildir; hjúkrunarfræðideild, iðjuþjálfunarfræðideild og framhaldsnámsdeild í heilbrigðisvísindum.

Hver deild ber ábyrgð á skipulagi og þróun þess náms sem heilbrigðisvísindasvið hefur samþykkt að fari fram innan deildarinnar. Innan hverrar deildar er boðið upp á minnst eina námslínu eða braut, en með því er átt við skilgreinda samsetningu námskeiða sem nemandinn þarf að ljúka til að hljóta tiltekna gráðu.

Við skipulagningu náms við heilbrigðisvísindasvið er tekið mið af lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012, lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007, lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 og lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008.

Við skipulagningu náms í hjúkrunarfræði er tekið mið af reglugerð um menntun, réttindi og skyldur hjúkrunarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi nr. 512/2013.

Við skipulagningu náms í iðjuþjálfunarfræði er tekið mið af reglugerð um menntun, réttindi og skyldur iðjuþjálfa og skilyrði til að hljóta starfsleyfi nr. 1221/2012.

Við skipulagningu framhaldsnáms í heilbrigðisvísindum er meðal annars tekið mið af því að hver nemandi geti fengið nám sitt metið til sérfræðiviðurkenningar, sjá meðal annars reglugerð um menntun, réttindi og skyldur hjúkrunarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi nr. 512/2013, reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi nr. 1127/2012, reglugerð um menntun, réttindi og skyldur sjúkraþjálfara og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi nr. 1127/2012, og reglugerð um menntun, réttindi og skyldur félagsráðgjafa og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi nr. 1088/2012.

III. KAFLI Stjórnskipulag

3. gr. Skilgreiningar

Stundakennari: Kennari sem kennir hluta úr námskeiði eða heilt námskeið en er ekki ráðinn í stöðu aðjúnkts, lektors, dósents eða prófessors við Háskólann á Akureyri.

Kennari með tímabundinn ráðningarsamning: Aðjúnkt eða lektor sem ráðinn er til afmarkaðs tíma, t.d. eins eða tveggja ára. Um getur verið að ræða hlutastarf eða fullt starf.

Fastráðinn kennari: Aðjúnkt, lektor, dósent eða prófessor sem ráðinn er ótímabundið. Um getur verið að ræða hlutastarf eða fullt starf.

Sérfræðingur: Starfsmaður sem ráðinn er til rannsókna og/eða þróunarverkefna, með eða án rannsóknarfrelsis, í krafti sérfræðiþekkingar sinnar.

Verkefnastjóri klínísks náms: Starfsmaður sem ráðinn er m.a. til að sjá um niðurröðun nemenda í hjúkrunarfræði í klínískt nám og hefur umsjón með klínískri námsstofu, Þor­bjargar­stofu, sjá nánari starfslýsingu í „Handbók um klínískt nám í hjúkrunarfræði við heil­brigðisvísindasvið HA“.

4. gr. Deildafundur heilbrigðisvísindasviðs

Deildafundur heilbrigðisvísindasviðs fer með æðsta ákvörðunarvald í málefnum fræðasviðs. Hann fjallar um meginatriði í starfsemi heilbrigðisvísindasviðsins og ber ásamt forseta fræðasviðs ábyrgð á að starfsemi sviðsins sé í samræmi við lög og reglur. Deildafundur heilbrigðisvísindasviðs [veitir umsögn til rektors um]1 ráðningu forseta heilbrigðisvísindasviðs til [fjögurra]2 ára samkvæmt 16. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009, að undangenginni kosningu um umsækjendur. Á deildafundi skal jafnframt kosinn staðgengill forseta fræðasviðs til tveggja ára sem og varastaðgengill. Nánar er kveðið á um verkefni deildafundar í 17. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009.

Á deildafundi eiga sæti og atkvæðisrétt; forseti fræðasviðs, prófessorar, dósentar, lektorar og aðjúnktar óháð starfshlutfalli og aðrir fastráðnir starfsmenn heil­brigðis­vísinda­sviðs, starfsmenn Heilbrigðisvísindastofnunar Háskólans á Akureyri, sjá reglur um Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri nr. 867/2003, einn fulltrúi stunda­kennara hverrar deildar og einn fulltrúi nemenda hverrar deildar, samkvæmt 17. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/ 2009.

1) Breytt með reglum nr. 785/2020.
2) Breytt með reglum nr. 785/2020.

5. gr. Deildaráð heilbrigðisvísindasviðs

Deildaráð heilbrigðisvísindasviðs starfar samkvæmt 14. og 18. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009. Ráðið fjallar um erindi sem varða mál einstakra nemenda og önnur málefni sem varða heilbrigðisvísindasvið. Deildafundur (sviðsfundur) heilbrigðis­vísinda­sviðs setur nánari reglur um vald og verksvið deildaráðs.

Í deildaráði eiga sæti auk forseta fræðasviðs, staðgengill forseta fræðasviðs, deilda­formenn, tveir fulltrúar fastra kennara fræðasviðs og tveir til vara, sem kosnir eru á deilda­fundi heilbrigðisvísindasviðs til tveggja ára í senn og einn fulltrúi nemenda valinn af félags­samtökum þeirra til eins árs í senn.

6. gr. Forseti heilbrigðisvísindasviðs, deildaformenn og deildarfundir

Forseti heilbrigðisvísindasviðs ber ábyrgð á rekstri heilbrigðisvísindasviðs og kennslu á heilbrigðisvísindasviði ásamt deildaformönnum.

Deildaformenn og deildarfundir bera ábyrgð á kennslu, kennslufyrirkomulagi og þróun náms innan hverrar deildar heilbrigðisvísindasviðs. Deildarfundir hverrar deildar gera tillögur til deildaráðs um að auglýsa stöður, fjalla um umsóknir að fengnu dómnefndaráliti og gera tillögur til forseta heilbrigðisvísindasviðs um ráðningar.

Sæti í deild – og þar með seturétt, tillögurétt og atkvæðisrétt á deildarfundum – eiga aðjúnkt­ar, lektorar, dósentar eða prófessorar sem inna af hendi minnst 50% kennslu­skyldu sinnar innan deildar, ásamt verkefnastjórum. Þetta ákvæði á ekki við um fram­halds­náms­deild í heilbrigðisvísindum.

Deildarformaður skal kosinn af deildarfundi hverrar deildar til tveggja ára í senn úr hópi fastráðinna lektora, dósenta eða prófessora deildarinnar. Kosning deildarformanns skal fara fram eigi síðar en í júní fyrir næstu tvö skólaár. Einnig skal deildarfundur kjósa staðgengil deildarformanns til sama tíma. Einungis deildarfundur getur leyft frávik frá þessum ákvæðum.

Deildarformaður ber ábyrgð á starfsemi deildar, skipulagi, undirbúningi og framkvæmd náms, þróun og samskiptum og tekur einnig þátt í stjórn deildar. Hann sér um samskipti við nemendur, áætlun kennslumagns, gerir tillögur um nýráðningar, velur umsjónar­kennara í samráði við forseta heilbrigðisvísindasviðs og kemur að stunda­skrár­gerð í samvinnu við skrifstofu fræðasviðsins. Deildarformaður stýrir deildar­fundum og fylgir samþykktum fundanna eftir. Nánar skal kveðið á um ábyrgð og verk­efni deildar­formanns í sérstakri starfslýsingu.

7. gr. Náms- og matsnefndir

Innan heilbrigðisvísindasviðs skulu náms- og matsnefndir starfa innan hverrar deildar.

Námsnefnd gerir tillögur til deildarfundar um breytingar á náms- og kennsluskrá. [Námsnefndir skulu vera skipaðar deildarformanni og minnst tveimur fulltrúum fastráðinna kennara sem valdir eru til tveggja ára í senn af viðkomandi deildarfundi og einum fulltrúa nemenda, sem valinn er af félagasamtökum þeirra til eins árs í senn. Námsnefnd velur sér formann til eins árs í senn og skiptir með sér verkum.]1  

Matsnefndir skulu gera tillögur um mat á fyrra námi og fyrirhuguðu skiptinámi nemenda viðkomandi deildar. Matsnefndir skulu minnst vera skipaðar þremur fulltrúum fastráðinna kennara sem valdir eru til tveggja ára í senn af viðkomandi deildarfundi og einum fulltrúa nemenda, sem valinn er af félagasamtökum þeirra til eins árs í senn.

1) Breytt með reglum nr. 1312/2021.

IV. KAFLI Gildistaka o.fl.

8. gr. Gildistaka og endurskoðun

Reglur þessar sem samþykktar voru í háskólaráði 24. júní 2013 eru settar á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009 og taka gildi frá og með 1. ágúst 2013. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 610/2009 um stjórnskipulag heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Reglur þessar skulu endurskoðaðar reglulega með hliðsjón af fenginni reynslu.

Háskólanum á Akureyri, 23. ágúst 2013.
Stefán B. Sigurðsson, rektor.

Breytingar nr. 785/2020 samþykktar í háskólaráði 25. júní 2020.
Breytingar nr. 1312/2021 samþykktar í háskólaráði 28. október 2021.