Reglur um stjórnskipulag Viðskipta- og raunvísindasviðs Háskólans á Akureyri

Nr. 864/2009

SAMÞYKKTAR Í HÁSKÓLARÁÐI 2.10.2009

Með breytingum nr. 787/2020 og nr. 568/2021

vefútgáfa síðast uppfærð 03.06.2021

Prentgerð (pdf)
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan
 og í PDF skjali gildir PDF skjalið

EFNISYFIRLIT

  1. Markmið og stefna
  2. Deildafundur - fræðasviðsfundur
  3. Deildaráð
  4. Forseti
  5. Deildir og námsbraut
  6. Deildarformenn og deildarfundir
  7. Brautarstjórar og kennarafundi
  8. Náms- og matsnefndir
  9. Umsjón málaflokka
  10. Gildistaka og endurskoðun

1. gr. Markmið og stefna

Meginmarkmið viðskipta- og raunvísindasviðs er að bjóða upp á öflugt háskólanám á [grunn-, meistara- og doktorsstigi]1 og standa fyrir rannsóknum á sviðum viðskipta- og raunvísinda með áherslu á rannsóknir á náttúruauðlindum, nýtingu og rekstri þeirra og rannsóknir fyrir og á íslensku atvinnulífi.

Fræðasviðið mótar sér stefnu til nokkurra ára í senn í samræmi við grunnmarkmið sín og stefnu Háskólans á Akureyri.

Viðskipta- og raunvísindasvið starfar á grundvelli laga um háskóla nr. 63/2006, laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 og reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009.

1) Breytt með reglum nr. 787/2020.

2. gr. Deildafundur – fræðasviðsfundur

Deildafundur viðskipta- og raunvísindasviðs, hér eftir nefndur fræðasviðsfundur, fer með æðsta ákvörðunarvald í málefnum fræðasviðsins. Hann fjallar um meginatriði í starfsemi fræðasviðsins og ber ásamt forseta ábyrgð á að starfsemi þess sé í samræmi við lög og reglur. Fræðasviðsfundur  [veitir umsögn til rektors]1 að ráðningu forseta fræðasviðsins, að undan­genginni kosningu milli umsækjenda. Á fræðasviðsfundi skal jafnframt kosinn staðgengill forseta til tveggja ára sem og varastaðgengill. Nánar er kveðið á um verkefni deildafundar fræðasviðs, fræðasviðsfundar, í 17. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009.

Á fræðasviðsfundi eiga sæti og atkvæðisrétt: Forseti, prófessorar, dósentar, lektorar og aðjúnktar óháð starfshlutfalli, starfsmenn samstarfsstofnana sem teljast hafa stjórnunar-, rannsóknar- eða kennsluskyldu við sviðið, verkefnisstjórar og sérfræðingar starfandi við sviðið, einn fulltrúi stundakennara úr hverri deild, tilnefndur af [deildarfundi]2 viðkomandi deildar til eins árs í senn og einn fulltrúi nemenda úr hverri deild, tilnefndur af félagssamtökum þeirra til eins árs í senn.

Fræðasviðsfund skal boða bréflega eða í tölvupósti með þriggja daga fyrirvara, ef unnt er. Fundarefni skal tilgreina í fundarboði. Fundurinn er ályktunarbær ef hann sækja 50% atkvæðisbærra fulltrúa úr hópi þeirra sem eru í fullu starfi á fræðasviðinu.

1) Breytt með reglum nr. 787/2020.
2) Breytt með reglum nr. 787/2020.

3. gr. Deildaráð

Deildaráð starfar samkvæmt 18. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009. Ráðið fjallar um rekstur, framkvæmdir og önnur mál sem varða fræðasviðið. Fræða­sviðs­fundur setur nánari reglur um vald og verksvið deildaráðs.

[Í deildaráði eiga sæti auk forseta fræðasviðs staðgengill hans, deildarformenn, brautarstjórar, tveir fulltrúar kennara í hverri deild, valdir af deildarfundi til tveggja ára í senn og einn fulltrúi nemenda í hverri deild tilnefndur af félagssamtökum þeirra til eins árs í senn.]1

1) Breytt með reglum nr. 787/2020.

4. gr. Forseti

Forseti viðskipta- og raunvísindasviðs er ráðinn af rektor til [fjögurra] ára að fenginni umsögn fræðasviðsins, skv. 16. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009. Hann hefur í umboði fræðasviðsfundar yfirumsjón með starfsemi og rekstri sviðsins og vinnur að stefnumörkun í málefnum þess. Um verkefni forseta er nánar fjallað í 15. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009. Forseti annast fundarboð til fulltrúa á fræðasviðsfundi og stýrir þeim. Hann er jafnframt formaður deildaráðs.

1) Breytt með reglum nr. 787/2020.

5. gr. Deildir og námsbrautir

Viðskipta- og raunvísindasvið skiptist í tvær deildir: Viðskiptadeild og auðlindadeild.

Hvor deild ber ábyrgð á skipulagi og þróun þess náms sem fræðasviðið hefur samþykkt að fari fram innan deildarinnar. Innan hvorrar deildar er boðið upp á minnst eina námsleið (braut) en með því er átt við skilgreinda samsetningu námskeiða sem nemandinn þarf að ljúka til að hljóta skilgreinda gráðu.

6. gr. Deildarformenn og deildarfundir

Deildarformenn og deildarfundir bera ábyrgð á kennslu, kennslufyrirkomulagi og þróun náms. Deildarfundur gerir einnig tillögur til forseta um að auglýsa stöður, fjallar um umsóknir að fengnu dómnefndaráliti og gerir tillögur til forseta um ráðningar. Deildarfundur fjallar um málefni einstakra nemenda í umboði fræðasviðsfundar.

[Sæti í deild – og þar með seturétt og tillögurétt á deildarfundum – eiga aðjúnktar, lektorar, dósentar og prófessorar sem ráðnir eru í stöðu við deildina, einn fulltrúi stundakennara við deildina og einn fulltrúi nemenda sem tilnefndur er af félagssamtökum þeirra til eins árs í senn. ]1Atkvæðisrétt á deildarfundum eiga aðjúnktar, lektorar, dósentar og prófessorar sem ráðnir eru í stöðu við deildina með 40% starfshlutfall eða meira, fulltrúi stundakennara við deildina og fulltrúi nemenda. Deildarformaður skal kosinn af deildarfundi til tveggja ára í senn, úr hópi fastráðinna lektora, dósenta og prófessora deildarinnar. Einnig skal deildarfundur kjósa staðgengil deildarformanns til sama tíma. Einungis fræðasviðsfundur getur leyft frávik frá þessum ákvæðum.

Deildarformaður ber ábyrgð á starfsemi deildar, skipulagi, undirbúningi og framkvæmd náms, þróun og samskiptum og tekur einnig þátt í stjórnun fræðasviðsins, m.a. með setu í deildaráði. Hann sér um samskipti við nemendur, áætlun kennslumagns, gerir tillögur um nýráðningar, velur umsjónarkennara hvers námskeiðs í samráði við forseta fræðasviðs og kemur að stundaskrárgerð í samvinnu við skrifstofu fræðasviðs. Deildarformaður stýrir deildarfundum og fylgir samþykktum fundanna eftir. Nánar er kveðið á um ábyrgð og verkefni deildarformanns í sérstakri starfslýsingu.

1) Breytt með reglum nr. 568/2021

7. gr. Brautarstjórar og kennarafundir

Deildum er heimilt að velja sérstaka brautarstjóra til að hafa umsjón með einni eða fleiri námsbrautum innan deildarinnar. Brautarstjórar eru kosnir á deildarfundi til tveggja ára í senn. Brautarstjórn felur í sér samskipti við nemendur, setu í náms- og matsnefnd og forystu um samráð milli kennara um kennslu- og námsþróun. Nánar er kveðið á um ábyrgð og verkefni brautarstjóra í sérstakri starfslýsingu.

Kennarafundir eru vettvangur slíks samráðs. Á kennarafund má kalla fastráðna kennara, lausráðna kennara, stundakennara og hverja þá aðra sem koma að kennslu innan námsbrautar hverju sinni.

8. gr. Náms- og matsnefndir

Náms- og matsnefndir gera tillögur um mat á fyrra námi og fyrirhuguðu skiptinámi nemenda í viðkomandi deild eða á námsbraut. Náms- og matsnefndir gera jafnframt tillögur til deildarfundar um breytingar á náms- eða kennsluskrá. Náms- og matsnefnd skal skipuð minnst þremur fulltrúum kennara (aðjúnkta, lektora, dósenta eða prófessora) sem valdir skulu til tveggja ára í senn af viðkomandi deildarfundi og einum fulltrúa nemenda, sem valinn er af félagssamtökum þeirra til eins árs í senn. Nefndin skiptir sjálf með sér verkum. Nánar er kveðið á um skipan, hlutverk og verkferla náms- og matsnefnda í sérstakri samþykkt.

Náms- og matsnefndir á viðskipta- og raunvísindasviði eru þrjár: í grunnnámi í viðskiptafræði, í grunnnámi í auðlindafræði og sameiginleg meistara­náms­nefnd beggja deilda. Náms- og matsnefndirnar skulu hafa formlegt samráð sín á milli með það fyrir augum að koma á sem mestri samvinnu um nám og námsframboð á fræðasviðinu. 

9. gr. Umsjón málaflokka

Umsjónarmenn eða umsjónarnefndir málaflokka bera sérstaka ábyrgð á tilteknum málaflokkum innan fræðasviðsins. Slíkir málaflokkar eru t.d. rannsóknir, alþjóða­sam­skipti, kynningar, markaðsstarf og kennsluþróun. Fræðasviðsfundur ákveður hvaða málaflokkar skulu skilgreindir á sviðinu og skipar umsjónarmenn og/eða umsjónarnefndir til tveggja ára í senn.

10. gr. Gildistaka og endurskoðun

Stjórnskipulag þetta er samþykkt á grundvelli laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 og reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009 og tekur þegar gildi. Stjórnskipulag þetta og starfslýsingar skal endurskoðað reglulega og skal þá tekið mið af fenginni reynslu. Fyrsta endurskoðun fer fram á fyrsta fræðasviðsfundi almanaksársins 2010. Samþykkt á fræðasviðsfundi 23. september 2009.

Samþykkt í háskólaráði Háskólans á Akureyri, 2. október 2009.
Stefán B. Sigurðsson, rektor

Breytingar nr. 787/2020 samþykktar í háskólaráði 25. júní 2020.
Breytingar nr. 568/2021 samþykktar í háskólaráði 18. febrúar 2021.