Sjálfbær nýting sjávarauðlinda eftir vistvænum leiðum, með fullnýtingu afla, tæknivæðingu og hámörkun verðgildis hráefna er talin verða krafa alþjóðasamfélagsins til framtíðar litið.

MARBIO er samnorrænt meistaranám í sjálfbærri framleiðslu og nýtingu á afurðum sjávar. Um er að ræða rannsóknatengt meistaranám sem boðið er upp á sameiginlega af fjórum norrænum háskólum. University of Gothenburg, Nord University Bodö, Háskólinn á Hólum og Háskólinn á Akureyri. Námið veitir haldgóða, rannsóknatengda menntun á sviði sjávarauðlinda og nýtingar þeirra í fjölþættu samhengi.

Námið fer fram á ensku.

Er námið fyrir þig?

  • Vilt þú læra um fullnýtingu afurða?
  • Hefur þú áhuga á sjávarútvegi á heimsvísu?
  • Hefur þú velt fyrir þér áhrifum loftslagsbreytinga á fiskveiðar?
  • Hefur þú áhuga á nýsköpun á sviði fiskeldis?

Áherslur námsins

Markmið MARBIO eru að veita haldgóða, rannsóknatengda menntun á sviði sjávarauðlinda og nýtingar þeirra í fjölþættu samhengi. Í náminu eru samþættuð líffræði-, umhverfis- samfélags- og lagaleg fagsvið og heildstætt en þverfaglegt nám byggt upp

Að námi loknu ætti brautskráður nemandi að hafa víðtæka þekkingu á sjálfbærri framleiðslu og nýtingu lífauðlinda hafsins. Í náminu er lögð áhersla á að nemandi geti með sjálfstæðum hætti nýtt sér viðeigandi aðferðir við rannsóknir og þróun á sviðinu og geti miðlað flóknum vísindalegum upplýsingum til sérfræðinga og almennings.

MARBIO er hugsað sem þverfagleg tenging milli fiskveiða, fiskeldis og annarrar lífrænnar matvælaframleiðslu í sjó eða vatni, með sérstakri áherslu á nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi. Námið býr nemendur undir margskonar störf og/eða nám á PhD-stigi.

MARBIO felur í sér s.k. sveigjanleika fyrir nemendur þar sem gert er ráð fyrir því að nemandinn dvelji og stundi nám í eitt misseri á sínum námstíma hjá einhverjum samstarfsskólanna. Skiptidvölin er skylda fyrir hvern nemanda en hann ræður þó hvenær á námstímanum hún er.

Skipulag náms er hægt að nálgast í Uglu.

Möguleikar að námi loknu

Námið er kjörinn undirbúningur fyrir margvísleg störf á sviði sjávarútvegs og sjálfbærni. Fjöldi starfa er hjá nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Námið er kjörinn undirbúningur fyrir störf hjá alþjóðlegum sjávarútvegsfyrirtækjum, ráðuneytum, sérfræðistofnunum og ráðgjafafyrirtækjum.

Meistaranámið veitir aðgang að doktorsnámi á sviði vísinda, viðskipta og tengdum greinum, bæði við innlenda og erlenda háskóla.

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að nemendur hafi lokið BA eða BS prófi á sviði náttúru- eða raunvísinda, viðskiptafræði, lögfræði eða tengdum greinum. Krafa er gerð um að nemandi hafi lokið grunngráðu með fyrstu einkunn (7,25). Erlendir umsækjendur, sem ekki hafa ensku að móðurmáli, þurfa að sýna fram á góða þekkingu á enskri tungu (lágmarkseinkunn TOEFL 85 eða IELTS 6.5).

Umsækjendur skulu skila inn greinagerð á ensku (500-1500 orð) þar sem þeir tilgreina hvers vegna þeir hafa áhuga á náminu, bakgrunn og þekkingu á faginu, markmið með náminu og framtíðaráform, sem og hugsanlegt viðfangsefni í meistararitgerð.

Umsókn skal fylgja meðmæli frá 2 einstaklingum sem þekkja til umsækjanda og geta veitt viðkomandi skýra umsögn.

Til að hefja kennslu MARBIO ár hver þurfa að lágmarki 10 nemendur í heild að innrita sig í námið. Alls eru teknir inn 20 nemendur hvert námsár.