Beðið eftir fjármagni í Miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Akureyri

Rannsóknarmiðstöð gegn ofbeldi við HA mun vinna rannsóknir á starfseminni og meta árangur hennar.
Beðið eftir fjármagni í Miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Akureyri

Vikudagur greindi frá því í dag að viljayfirlýsing um að koma upp Miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norður- og Austurlandi hefur verið undirrituð og erindið sent til stjórnvalda. Farið er fram á að ríkið ábyrgist ákveðið fjármagn til rekstrarins.

Um er að ræða samstarfsverkefni Lögreglunnar á Akureyri, Sjúkrahússins á Akureyri, Aflsins, Háskólans á Akureyri, Akureyrarbæjar og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og yrði þetta tilraunaverkefni til tveggja ára. Markmiðið er að þolendamiðstöðin verði skjól fyrir brotaþola ofbeldis 18 ára og eldri, bæði karla og konur sem hafa m.a. verið beitt kynferðisofbeldi, ofbeldi í nánum samböndum eða eru brotaþolar í mansalsmálum og/eða vændi.

Þjónustan miðast við Norðurland eystra, Norðurland vestra og Austurland. Akureyrarbær með samþykki Aflsins leggur til húsnæði og stendur straum af rekstrarkostnaði hússins. 

Sigrún Sigurðardóttir, lektor við Há­skólann á Akureyri, var í undirbúningshóp fyrir verkefnið. Hún segir í samtali við Vikudag að mikil þörf sé á slíkri miðstöð á svæðinu.

„Við lítum á þetta þannig að þetta yrði fyrsta stigið fyrir brotaþola. Þetta er svipað og sams konar miðstöð fyrir sunnan, Bjarkarhlíð, en við erum hins vegar að taka þetta skrefinu lengra þar sem við tengjum Háskólann við þetta og rannsóknir. Einnig er samstarf við heilbrigðisstofnanir sem mér finnst eðlilegt þar sem um er að ræða heilbrigðisvandamál. Við erum því að gera töluvert meira en sams konar miðstöð fyrir sunnan,“ segir Sigrún. 

Hún segir boltann nú vera hjá stjórnvöldum. „Það er allt til reiðu til að hefja starfsemina og málið er nú í biðstöðu þar til við fáum svar frá ríkisvaldinu.“

Aflið stendur fyrir málþingi í dag, fimmtudaginn 26. apríl þar sem rætt verður um Miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norður­ og Austurlandi. Málþingið hefst kl. 16:00 í anddyri Borga við Norðurslóð.