Samfélagið fjallaði um lokadrög stefnu HA

Lokadrög stefnumótunar HA til ársins 2023 hefur verið kynnt innan skólans en nú var komið að samfélaginu að segja sitt álit og koma með gagnlegar ábendingar.
Samfélagið fjallaði um lokadrög stefnu HA

Á föstudag s.l. komu saman fulltrúar úr samfélaginu til að ræða lokadrög stefnumótunar HA til ársins 2023. Þátttakendum var skipt í hópa og fengu þeir tækifæri til að fjalla gagnrýnið um stefnuna, benda á góð atriði og bæta við áherslum.

Spurningarnar sem gengið var útfrá voru þessar:

  1. Hvernig kallast sýn HA á við stefnu og framtíðarsýn atvinnulífsins?
  2. Eru meginaðgerðir sem HA verður að koma í framkvæmd sem ekki eru í þessu skjali?
  3. Er líklegt að HA nái að veita nemendum aðgang að námi og rannsóknum sem gerir þeim kleift að takast á við breytta framtíð?

Fram kom að mikil ánægja var með sveigjanlega námið útfrá sjónarmiði byggðarþróunar enda sýna rannsóknir að líklegara er að útskrifaðir nemendur sem numið hafa í heimabyggð búi þar áfram fimm árum eftir brautskráningu. Einnig var mikil ánægja með þróun kennsluhátta, sér í lagi fjarveranna sem tóku virkan þátt í fundinum. Þó var bent á mikilvægi þess að halda þróuninni áfram og stuðla áfram að myndun samfélaga á netinu og færni í samskiptum þar.

Tekið var fram að námi í tæknifræði myndi mæta kröfum atvinnulífsins, sér í lagi út frá kröfu um tæknilausnir til að uppfylla grunnþarfir, eftirlitshlutverk og öryggishlutverk.

Það heyrðust raddir um áhuga á skapandi námi: Nýsköpun ætti ekki alltaf við um tækni heldur líka í kennslu, menningu og listum, í þjónustu og velferðarmálum.

Einnig var sett spurningarmerki við nemendafjöldann. HA hefur sett sér markmið að við skólann stundi að hámarki 2.500 nemendur nám en í dag er nemendafjöldi um 2.100. Til að jafna kynjahlutföllin þyrfti því að fara í viðamiklar aðgerðir.

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, fagnar áhuga samfélagsins á stefnumótuninni:

„Háskólinn á Akureyri þjónustar samfélagið í heild sinni og því er mikilvægt að raddir sem flestra heyrist við gerð stefnumótunar. Á sama tíma og við deildum sömu áhyggjum um kynjahlutfall í skólanum og skorti á fjarmagni inn í skólann til að taka upp nýjar námsleiðir þá erum við vongóð um að með sameinuðum kröftum samfélagsins alls getum við vakið athygli á mikilvægi háskólanáms utan höfuðborgarsvæðisins. Sérstaklega í ljósi kröfu um menntun á Íslandi öllu í aðdraganda fjórðu iðnbyltingarinnar.“

Hópar rýna í lokadrög stefnunnar

Umræður fóru fram með hjálp fjarvera

Rektor ávarpar fundinn