HA undirbýr fagnám á háskólastigi

Háskólinn á Akureyri hefur í samvinnu við Mennta- og menningarmálaráðuneytið ráðið tvo verkefnastjóra sem skila eiga af sér skýrslu til ráðuneytisins um mótun fagnáms á háskólastigi.
HA undirbýr fagnám á háskólastigi

Það er verið að kanna hvort til dæmis sjúkraliðar sem lokið hafa fagnámi á háskólastigi geti fengið námið metið í kjölfar þess að hafa uppfyllt kröfur um inngöngu í hjúkrunarfræðinám (klausus). Það sama verður skoðað til handa vélstjórum inn í nám í sjávarútvegsfræði.

Verkefnið felst í því að kanna hvernig ramma ber að hanna í kringum slíka námsleið sem tengir saman starf- og bóknám. Innan framhaldsskólana eru nú þegar námsleiðir sem telja mætti mitt á milli framhalds- og háskólanáms. Til að mæta þörfum samfélagsins þarf að fara fram samtal um hvernig sé hægt að skapa raunhæfa námsleið sem veiti starfsnámi brautargengi til háskólagráðu.

Það sem einkennir fagnám á háskólastigi er að skipulag og uppbygging námsins byggir á nánum tengslum við atvinnulífið. Starfsmenntun og/eða starfstengd sérþekking er viðurkennd sem undirbúningur fyrir námið í ríkara mæli en í hefðbundnu háskólanámi og getur í vissum tilvikum nýst sem hluti námsins, t.d. með raunfærnimati.
Með þessu móti er háskólinn að fylgja eftir þeirri vinnu sem hófst síðastliðið haust en fékk ekki brautargengi hjá ráðuneyti fyrr en núna á árinu 2018. Það eru spennandi tímar framundan og framhaldið ætti að skýrast í byrjun næsta árs.