Lektor við HA fær viðurkenningu

Andrea Sigrún Hjálmsdóttir hlaut jafnréttisviðurkenningu frístundaráðs.
Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson
Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson

Á árlegri Vorkomu Akureyrarstofu var á dögunum tilkynnt um viðurkenningar til handa stofnunum og einstaklingum vegna ýmissa starfa.

Í þessum hópi var Andrea Sigrún Hjálmsdóttir, lektor við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri. Andrea fékk jafnréttisviðurkenningu frístundaráðs fyrir framlag sitt til jafnréttismála á Akureyri. Í rökstuðningi kemur fram að Andrea hefur skrifað fjölmargar greinar og skýrslur um jafnréttismál auk þess sem hún hefur haldið fyrirlestra og erindi um jafnréttismál hérlendis sem og erlendis. Í rannsóknarstarfi sínu leggur Andrea áherslu á jafnréttisrannsóknir en viðfangsefni hennar um þessar mundir er að skoða þróun starfsferla karla og kvenna og verkaskiptingu út frá kynjuðu sjónarhorni. Þessi rannsókn er hluti af doktorsnámi hennar sem hún hóf síðasta haust.

Það var samdóma álit frístundaráðs að Andrea væri vel að þessari viðurkenningu komin.

Akureyrarstofa veitti að auki heiðursviðurkenningu Menningarsjóðs og er hún veitt einstaklingum sem hafa með framlagi sínu stutt við og auðgað menningarlíf bæjarins. Rósa Kristín Júlíusdóttir, fyrrverandi dósent við kennaradeild HA, hlaut viðurkenninguna fyrir mikilsvert og óeigingjarnt framlag til myndlistar og myndlistarkennslu á Akureyri.