Ráðið í stöður fjármálastjóra og framkvæmdastjóra háskólaskrifstofu

Harpa ráðin forstöðumaður fjármálasviðs og Hólmar framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu.
Ráðið í stöður fjármálastjóra og framkvæmdastjóra háskólaskrifstofu

Gengið hefur verið frá ráðningu forstöðumanns fjármálasviðs og hefur Harpa Halldórsdóttir verið ráðin í starfið. Hún tekur við af Úlfari Haukssyni sem hefur sinnt starfinu frá 2004 sem fjármálastjóri Háskólans á Akureyri.

Harpa lauk Cand.Oecon prófi sem viðskiptafræðingur á framleiðslu- og stjórnunarsviði árið 1986 og aftur árið 2006 sem viðskiptafræðingur á endurskoðunarsviði. Jafnframt lauk hún M.Acc. prófi árið 2007 í reikningshaldi og endurskoðun. Harpa hefur starfað sem skrifstofustjóri hjá Svalbarðsstrandarhrepp frá árinu 2014 þar sem hún var staðgengill sveitarstjóra og sinnir fjárumsýslu, áætlanagerð, bókhaldi, reikningagerð, innheimtu o.fl. Áður hefur Harpa starfað hjá embætti umboðsmanns skuldara á Akureyri sem faglegur deildarstjóri og hjá Price Waterhouse Coopers við endurskoðun. Jafnframt hefur hún verið stundakennari við Háskólann á Akureyri.

Þá hefur Hólmar Svansson verið ráðinn framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu. Hann tekur við af Ólafi Halldórssyni sem hefur starfað við skólann í 11 ár.

Hólmar hefur lokið B.Sc. prófi í iðnaðarverkfræði frá Háskólanum í Alabama og MBA prófi í rekstrarhagfræði frá Purdue Háskóla. Að auki er Hólmar alþjóðlega vottaður verkefnastjóri ásamt því að hafa lokið markþjálfunarnámi. Hann starfaði hjá Sæplasti frá 2013 sem sölu- og markaðsstjóri og síðar sem framkvæmdastjóri þar sem hann stýrði verksmiðjum Sæplasts á Íslandi og á Spáni. Áður starfaði Hólmar á sviði mannauðs og stefnumótunar hjá Capacent, en þar starfaði hann bæði með opinberum fyrirtækjum og einkareknum. Þar sérhæfði hann sig á sviði stefnumótunar, þjónustu og sölumála. Hann hefur einnig starfað sem forstöðumaður Matvælaseturs Háskólans á Akureyri og sem framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar.