Styttist í Vísindaskóla unga fólksins

Nú fer hver að verða síðastur að sækja um í Vísindaskóla unga fólksins
Styttist í Vísindaskóla unga fólksins

Umsóknir streyma inn í Vísindaskóla unga fólksins sem verður haldinn í fjórða skiptið dagana 18.-22. júní. Vísindaskólinn er ætlaður ungu fólki á aldrinum 11-13 ára og í fyrsta sinn er nú hægt að nýta tómstundaávísun við greiðslu skólagjalda. Hámarksfjöldi nemenda er 80 og fer lausum plássum ört fækkandi.

Á hverju ári hefur verið boðið upp á ný þemu, sem gerir það að verkum að unga fólkið getur sótt skólann þrjú ár í röð og alltaf kynnst nýjum áherslum. Að þessu sinni eru yfirskriftir þemanna MEÐ LÖGUM SKAL LAND BYGGJA, LÍFRÍKIÐ Í BÆNUM, SKAPANDI HUGSUN, VÍSINDI HEIMA Í ELDHÚSI OG ÚTI Á GÖTU, og FAB LAB SMIÐJA. 

Á bak við þessi heiti liggur fræðsla um hvernig lögreglan starfar og hvað lögreglumenn þurfa að kunna og í hverju þeir lenda í daglegu starfi. Nemendur rannsaka lífríkið á háskólasvæðinu og finna út úr því hve margar tegundir af plöntum, fléttum og dýrum eru á svæðinu. Þeir kynnast nýsköpun og finna út úr því hvernig hugmyndir verða að veruleika og svo munu þeir kynnast eðlis- og efnafræði eldhússins og búa til eigið tilraunaeldhús. Nemendur kynnast einnig FAB LAB Akureyri og læra á teikniforrit og hanna og skera út hluti í laserskurðarvél.

Reynsla fyrri ára hefur sýnt að strákar sýna þessum skóla ekki síður áhuga en stelpur á aldrinum 11-13 ára. Stór hópur þátttakenda hefur komið ár eftir ár í skólann og það eru bestu meðmælin sem við getum fengið, segir Sigrún Stefánsdóttir, skólastjóri Vísindaskóla unga fólksins. 

Skólinn byrjar kl. 9.00 á morgnana og stendur fram til kl. 15.00 og fá þátttakendur hádegismat í skólanum. 

Frekari upplýsingar má finna inn á vefsíðu Vísindaskólans www.visindaskoli.is . Einnig má senda fyrirspurnir á netfangið visindaskóli@unak.is eða hringja í Sigrúnu Vésteinsdóttur, verkefnastjóra í síma 460-8904.