Um 5.000 manns kynntu sér nám á Háskóladeginum

Háskólinn á Akureyri tók þátt í Háskóladeginum sem haldinn var í 14 skiptið í Reykjavík á laugardaginn var. Allir sjö háskólar landsins kynntu námsleiðir sínar í Listaháskólanum, Háskólanum í Reykjavík og í Háskóla Íslands þar sem HA var að vanda með aðsetur á neðri hæð Háskólatorgs.
Um 5.000 manns kynntu sér nám á Háskóladeginum

Rúmlega 40 starfsmenn og nemendur HA kynntu grunn- og framhaldsnám á þremur fræðasviðum og mátti merkja mikinn áhuga gesta. Í fyrsta skipti gátu gestir heimsótt HA í gegnum fjarveru og margir nýttu sér það tækifæri. Á sama tíma var ein fjarvera á ferðinni á Háskóladeginum sem vakti einnig mikla athygli.

Líkt og árið áður var mikið spurt um lögreglufræði en Háskólanum á Akureyri var falið námið þegar Lögregluskóli ríkisins var lagður niður. Sérstök áhersla var lögð á að vekja athygli karla á hjúkrunarfræðinámi en Félag hjúkrunarfræðinga hefur ákveðið að endurgreiða körlum skráningargjöld ljúki þeir námsárinu.

„Nemendur kjósa í auknum mæli að vera staðarnemar á Akureyri til að upplifa háskólasamfélagið og fá tækifæri til að flytja að heiman án þess að þurfa að fara erlendis eða í rándýra leigu á höfuðborgarsvæðinu. Einnig fáum við margar spurningar um fjarnámið og þá tækifæri til að útskýra að fjarnámið sé orðið að sveigjanlegu námi þar sem engu skiptir hvar nemandi sé búsettur. Nærri allir fyrirlestrar eru teknir upp og nemendur mæta í einstaka lotur í Háskólann á Akureyri. Með 20 ára reynslu í fjarkennslu- og námi höfum við þróað námið sem við köllum nú sveigjanlegt nám – við erum síður en svo hætt með fjarnám, það er bara framþróunin sem hefur haft það í för með sér að það hefur þróast yfir í sveigjanleg nám.“, segir Katrín Árnadóttir, forstöðumaður markaðs- og kynningarsviðs. 

Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA merkir einnig aukinn áhuga á námi í HA um leið og skólinn þarf mögulega að huga að aðgangstakmörkunum.

„Háskólinn okkar er að að fyllast og eftir fjárhagslega erfið ár er komið að því að styrkja grunnþjónustuna þannig að við getum staðið undir því að veita nemendum persónulega þjónustu. Það er það sem nemendur kunna að meta við HA – að vera ekki kennitala á blaði heldur verðmætur nemandi sem okkur er umhugað um“, segir Eyjólfur að lokum.

Á Facebook-síðu háskólans má sjá myndir frá vel heppnuðum degi.