Vísindaskólinn opnar fyrir skráningar

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Vísindaskóla unga fólksins sem fram fer á háskólasvæðinu 18. - 22. júní.
Í fyrra komust færri að en vildu.
Í fyrra komust færri að en vildu.

Fjórða sumarið í röð tekur Vísindaskóli unga fólksins á móti börnum  á aldrinum 11-13 ára til þess að opna þeim gátt inn í  heim vísinda og leyndardóma lífsins. Skráning er hafin en undanfarin ára hafa færri komist að en vildu. Skólastarfið fer fram vikuna 18.-22. júní og verður boðið upp á fimm ný umfjöllunarefni.

Að þessu sinni fá nemendur að kynnast spennandi starfi lögreglumannsins og fá að reyna á eigin skinni hvernig er að vera lögga. Lífríki plantna og dýra verður rannsakað með sérfræðingum á Náttúrufræðistofnun. Sköpunargáfunni verður gefinn laus taumurinn þegar nemendur læra að setja fram hugmyndir sínar með fjölbreyttri tækni. Undur hversdagsleikans verða skoðuð með gleraugum eðlis- og efnafræðingsins og fá nemendur að spreyta sig á allskonar tilraunum. Í Fab Lab læra nemendur á teikniforrit og hvernig hægt er að hanna og smíða alls konar hluti. 

Vísindaskóli unga fólksins hefur fest sig í sessi sem sumartilboð fyrir börn sem vilja fræðast um ævintýri vísindanna. Í ár verður í fyrsta sinn hægt að nota tómstundaávísun Akureyrarbæjar við greiðslu skólagjalda. „Vonandi mun það opna dyrnar fyrir enn fleiri ungmenni að skólanum“, segir Sigrún Vésteinsdóttir, verkefnastjóri skólans.

„Metnaðarfullt verkefni sem þetta gæti ekki gengið nema fyrir tilstilli fyrirtækja, stofnanna og félagasamtaka í samfélaginu. Stuðningur þeirra er okkur ómetanlegur“, segir Sigrún ennfremur. Norðurorka, Akureyrarbær, KEA og fleiri fyrirtæki og stofnanir hafa stutt verkefnið dyggilega í gegnum tíðina. „Nokkur félagasamtök hafa einnig styrkt sérstaklega börn sem hefðu annars ekki átt kost á að skrá sig í skólann“, bætir Sigrún við að lokum.

                                                                            

Þátttakan undanfarin ár hefur farið fram úr björtustu vonum og hefur skólinn verið full setinn. Skráning fer fram á heimasíðu skólans www.visindaskoli.is