Að ná bata eftir kynbundið ofbeldi

Tveir doktorsnemar HA í alþjóðlegu verkefni.
Að ná bata eftir kynbundið ofbeldi

Hulda Sædís Bryngeirsdóttir og Karen Birna Þorvaldsdóttir eru fyrstir doktorsnema við Háskólann á Akureyri að undirrita formlegan samning um doktorsnám innan ramma alþjóðlegs verkefnis í heilbrigðisvísindum. Heildarverkefnið snýst um bataferli einstaklinga sem orðið hafa fyrir kynbundnu ofbeldi en doktorsverkefnin þeirra Huldu Sædísar og Karenar Birnu snúa einkum að íslenskum aðstæðum.

Heildarverkefnið nær til fjölda landa, þ.e. til Finnlands, Grikklands, Írlands, Ísraels, Ítalíu, Japans, Tyrklands, Rúmeníu og Bandaríkjanna. Verkefninu er stjórnað af doktor Denise Saint Arnault prófessor við ríkisháskólann í Michigan.

Með þessu er doktorsnám í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri formlega hafið. Það er kappsmál heilbrigðisvísinda eins og annarra fræðasviða við HA að doktorsnám muni ávallt tengjast alþjóðlegu fræðasamfélagi frá upphafi. Hefur þessu markmiði nú verið náð.

Undirritun samninganna fór fram í húsakynnum HA föstudaginn 13. september 2019. Að samningunum komu auk doktorsnemanna tveggja þau doktor Sigríður Halldórsdóttir prófessor í hlutverki aðalleiðbeinanda, doktor Eydís Kr Sveinbjarnardóttir sviðsforseti heilbrigðisvísindasviðs og doktor Lars Gunnar Lundsten forstöðumaður miðstöðvar doktorsnáms við HA.

Doktorsnám við Háskólann á Akureyri er sérsniðið að þörfum hvers doktorsnema. Bróðurpartur doktorsnámsins felst í rannsóknarverkefni sem að jafnaði er kostað af aðilum utan háskólans t.d. í formi verkefnastyrkja rannsóknarsjóða í umsjón RANNÍS.

Nánari upplýsingar um doktorsnámið eru að finna hér.