Ársfundur Háskólans á Akureyri

Starfsfólk kvatt með heiðursnælu HA
Ársfundur Háskólans á Akureyri

Ársfundur Háskólans á Akureyri var haldinn miðvikudaginn 23. júní. Eyjólfur Guðmundsson, rektor, fór yfir starfsemi og stöðu háskólans og Hólmar Erlu Svansson, framkvæmdastjóri, gerði grein fyrir rekstri háskólans. Yvonne Höller, formaður umhverfisráðs, fór yfir umhverfismál Háskólans á Akureyri. 

Á ársfundinum var starfsfólk heiðrað sem lætur af störfum eftir langan starfsferil við HA eða hefur náð 70 ára aldri. Einnig fengu þeir sem hafa starfað við HA í 30 ár eða lengur smá þakklætisvott. Það eru: 

 • Agnes Eyfjörð Kristinsdóttir, verkefnastjóri bókhalds – náði áfanganum í fyrra
 • Astrid Margrét Magnúsdóttir, forstöðumaður bókasafns og upplýsingaþjónustu
 • Ása Guðmundardóttir, skrifstofustjóri Viðskipta- og raunvísindasviðs
 • Hafdís Skúladóttir, lektor
 • Sigfríður Inga Karlsdóttir, dósent
 • Sigríður Halldórsdóttir, prófessor
 • Steingrímur Jónsson, prófessor

Rektor afhenti þeim sem láta af störfum heiðursmerki HA að gjöf með þakklæti fyrir vel unnin störf. Kristín Petrea Guðmundsdóttir (KPG) gullsmiður smíðaði merkið. Þau sem vor kvödd voru: 

 • Finnbogi Rútur Þormóðsson
 • Kristjana Fenger (fjarverandi)
 • Sigrún Magnúsdóttir
 • Rúnar Sigþórsson (fjarverandi)

Finnbogi Rútur Þormóðsson prófessor emeritus
Finnbogi var ráðinn sem lektor við Heilbrigðisvísindasvið í janúar 2020 og starfaði hann út desember það sama ár. Háskólinn á Akureyri gerði samkomulag við hann um starf sem prófessor emeritus fyrir almanaksárið 2021. Megin rannsóknaráhersla hans hefur verið á sviði arfgengrar íslenskrar heilablæðingar og mun Finnbogi halda áfram að þessum rannsóknum sem prófessor emeritus, meðal annars í samstarfi við fyrirtækið Arctic Therapeutics sem starfar innan háskólans.

Kristjana Fenger lektor
Kristjana var ráðin í stöðu lektors í iðjuþjálfunarfræði frá og með 1. ágúst 1998. Hún starfaði við háskólann í 22 ár og tók þátt í að byggja upp iðjuþjálfunarfræði sem faggrein hér á landi og var því einn af frumkvöðlum námsins við Háskólann á Akureyri. Uppbygging iðjuþjálfunarfræða við Háskólann á Akureyri hefur verið einn af lykilþáttum í uppbyggingu heilbrigðisvísinda á háskólastigi og hefur Kristjana þannig markað djúp spor í sögu iðjuþjálfunarfræða á Íslandi.

Sigrún Magnúsdóttir, sérfræðingur á Rektorsskrifstofu, áður gæðastjóri HA 
Sigrún kom fyrst til starfa við háskólann árið 1988 sem bókasafnsfræðingur. Önnur starfsheiti hennar á þeim árum voru deildarstjóri á bókasafni og yfirbókavörður. 
Árið 2001 var Sigrún forstöðumaður upplýsingasviðs en með nýju skipuriti árið 2006 tók Sigrún að sér stöðu gæðastjóra. Því starfi gegndi hún til loka árs 2020. Sigrún stýrir nú vinnu við skýrslu vegna stofnanaúttektar HA árið 2021.

Rúnar Sigþórsson prófessor
Rúnar var ráðinn sem lektor við Kennaradeild 1. ágúst árið 2000 (tímabundið) og síðan lektor í Menntunarfræðum ótímabundið frá ágúst 2002.
Hann hlaut framgang til dósents 1. desember 2004 og framgang til prófessors 1. júlí 2009.
Rúnar er metnaðarfullur kennari með skýra sýn á nám og kennslu. Hann hefur tekið þátt í fjölmörgum rannsóknum og rannsóknarverkefnum, stýrt rannsóknarhópum og staðið fyrir fjöldanum öllum af styrkumsóknum. Hann hefur birt margar greinar og bókarkafla á innlendum og erlendum vettvangi og skrifað og ritstýrt bókum fyrir skólastjórnendur og kennara meðal annars um þróunarstarf, námsmat og læsi og þannig auðgað íslenskt skólasamfélag og stuðlað að því að það hafi aðgang að rannsóknarniðurstöðum á íslensku um íslenskan veruleika. Rúnar mun starfa áfram við ýmis rannsókna- og þróunarverkefni fyrir Kennaradeild sem prófessor emeritus.

Afhending - viðurkenning
Frá vinstri: Eyjólfur Guðmundsson, Agnes Eyfjörð Kristinsdóttir, Steingrímur Jónsson, Sigfríður Inga Karlsdóttir,Finnbogi Rútur Þormóðsson, Sigrún Magnúsdóttir og Hafdís Skúladóttir.

Hér má nálgast upptöku Ársfundar Háskólans á Akureyri