Aukin tækifæri í Kína fyrir starfsfólk og nemendur HA

Háskólinn á Akureyri undirritar samstarfssamning við Shanghai Ocean University.
Aukin tækifæri í Kína fyrir starfsfólk og nemendur HA

Rektor HA lagði land undir fót og sækir um þessar mundir tvær alþjóðaráðstefnur í Shanghai, sú fyrri var sjöunda Norræna-kínverska norðurslóðaráðstefnan (e. CNARC Symposium) en sú seinni er haldin undir merkjum og í samstarfi við Hringborð Norðurslóða (e. Arctic Circle Forum). Rektor nýtti jafnframt tækifæri og heimsótti Shanghai Ocean University (SHOU), en með honum í för var Steingrímur Jónsson, prófessor við HA og CNARC gestafræðimaður við SHOU.

Háskólarnir hafa um nokkurt skeið kannað möguleika á samstarfi, sem nú hefur verið formfest með viðhöfn samhliða opnunarathöfn Norrænu-kínversku norðurslóðaráðstefnunnar. Það eru mörg tækifæri fyrir starfsfólk og nemendur HA í þessum samningi, en skólinn er afar sterkur á sviði fiskirannsókna og hafvísinda.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Yudong Cheng, rektor Shanghai Ocean University, og Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, ræða samstarfstækifæri háskólanna (mynd: Helen Zhu).