Doktorsverkefni við heilbrigðisvísindasvið hljóta styrki úr Jafnréttissjóði

Hulda Sædís Bryngeirsdóttir og Karen Birna Þorvaldsdóttir hlutu styrki úr Jafnréttissjóði Íslands.
Doktorsverkefni við heilbrigðisvísindasvið hljóta styrki úr Jafnréttissjóði

Miðvikudaginn, 19. júní, fengu Hulda Sædís Bryngeirsdóttir og Karen Birna Þorvaldsdóttir sem eru að hefja doktorsnám við heilbrigðisvísindasvið HA styrki í rannsóknir sínar frá Jafnréttissjóði. Í doktorsnefndum Huldu og Karenar Birnu eru Dr. Denise Saint Arnault, prófessor við Michigan háskóla, Dr. Rhonda M. Johnson, prófessor við University of Alaska, Ancorage sem nú er Fulbright prófessor við Háskólann á Akureyri og Dr. Sigríður Halldórsdóttir, prófessor við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri og Dr. Gísli Kort Kristófersson og Dr. Sigrún Sigurðardóttir, dósentar við heilbrigðisvísindasvið HA. Það var forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir sem afhenti styrkina.

Rannsóknin er alþjóðlegt samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri og University of Michigan. Ábyrgðarmaður alþjóða rannsóknarverkefnisins er Dr. Denise Saint Arnault sem er prófessor við Háskólann í Michigan en rannsóknin er samvinnuverkefni 11 landa. Hér á landi er Dr. Sigríður Halldórsdóttir prófessor við Háskólann á Akureyri, ábyrgðarmaður rannsóknarinnar.

Meginmarkmiði rannsóknarinnar er að skilja bata eftir reynslu af ofbeldi í nánu sambandi. Þess er vænst að upplýsingarnar sem við munum safna muni geta hjálpað okkur að greina áhrifaríkar leiðir til að hjálpa konum að ná bata eftir slík áföll.

Alls hlutu 17 verkefni og rannsóknir styrk, en 76 umsóknir bárust sjóðnum sem útdeildi tæplega 91 milljón króna í ár.