Efla kennslu fyrir nemendur sem koma til Íslands sem flóttamenn

Fyrsta yfirlitsskýrslan aðgengileg
Efla kennslu fyrir nemendur sem koma til Íslands sem flóttamenn

ITIRE Improving teaching in improve refugee education er þriggja ára Erasmus plus verkefni sem hófst árið 2019 og stendur til ársins 2022. Verkefnið snýr að því markmiði að efla kennslu fyrir nemendur sem koma til Íslands sem flóttamenn en mun gagnast öllum nemendum sem eru að hefja nám í nýju landi á nýju tungumáli. 

Hermína Gunnþórsdóttir prófessor og Anna Elísa Hreiðarsdóttir lektor eru þátttakendur í verkefninu fyrir hönd Háskólans á Akureyri. Auk HA standa eftirfarandi háskólar að verkefninu: Aarhus University (Danmörk), University of Vienna (Austurríki), UiT The Arctic University of Norway (Noregur) og University of Winchester (Bretland). 

„Verkefnið er bæði fræðilegt og hagnýtt og tengir saman kennara á öllum skólastigum. Sérstakur ávinningur til framtíðar litið er söfnun góðra dæma af vettvangi skólastarfs þar sem vel hefur tekist til en dæmi frá þátttökulöndunum verða þýdd á ensku og í opnum aðgangi. Þannig geta kennarar gengið í efni, nýtt sér og aðlagað eins og þeim hentar,“ segir Hermína Gunnþórsdóttir, prófessor við Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri. 

Verkefninu er ætlað að skila af sér nokkrum gagnlegum afurðum, til dæmis: 

  • Yfirlýsingu um stöðu og áherslur í menntun barna með flóttabakgrunn
  • Safni af góðum dæmum úr kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskóla
  • Þjálfun fyrir kennara og kennaranema
  • Samskipta- og upplýsingavettvangi á netinu

Fyrsta afurðin, yfirlitsskýrsla kom út í vetur og er aðgengileg hér

Góðum dæmum úr skólum hefur verið safnað í öllum löndunum og unnið er að samræmingu og þýðingum en samantekt verður birt sem ein heild innan tíðar á vefsíðu verkefnisins. Skólar á Akureyri lögðu fram verkefni sem þeim hefur reynst vel og verða þau hluti af verkefnabankanum. 

Frekari upplýsingar um verkefni má nálgast hér