Einelti í skóla eykur líkur á búferlaflutningum um land allt

Þóroddur Bjarnason prófessor við Félagsvísindadeild meðal rannsakenda í nýrri rannsókn
Einelti í skóla eykur líkur á búferlaflutningum um land allt

Í nýrri rannsókn sem unnin var af kennurum við Háskólann á Akureyri, Háskóla Íslands og Háskólann í Groningen í samstarfi við Byggðastofnun kemur fram að unglingar sem verða fyrir einelti í grunnskólum eru tvöfalt líklegri en aðrir til að ætla að flytja búferlum í framtíðinni, annað hvort innanlands eða af landi brott. Þessi áhrif eru óháð öðrum þáttum sem spá fyrir um búferlafyrirætlanir, svo sem kyni, tungumáli á heimili, frammistöðu í skóla og tengslum við vini og fjölskyldu.

Í rannsókninni var sérstaklega skoðað hvort þessi áhrif væru sterkari í landsbyggðunum þar sem nálægð er oft meiri og ef til vill erfiðara fyrir fórnarlömb eineltis að forðast gerendur í daglegu lífi utan skólans. Unglingar í dreifbýli og á suðvestursvæðinu í nágrenni höfuðborgarsvæðisins (hvítársvæðinu) eru líklegri en unglingar á höfuðborgarsvæðinu til að ætla að flytja innanlands en ólíklegri til að ætla að flytja til útlanda, en ekki var marktækur munur á unglingum á Akureyri og unglingum á höfuðborgarsvæðinu að þessu leyti. Hins vegar var sambandið milli eineltis og áforma um búferlaflutninga jafn sterkt í öllum tegundum byggðarlaga.

Greinin birtist í alþjóðlega fræðitímaritinu Population, Space and Place, og hægt er að óska eftir eintaki af greininni hjá Þóroddi í gegnum netfangið thorodd@unak.is.

Heimild: Þóroddur Bjarnason, Tialda Haartsen, Ársæll M. Arnarsson og Vanda Sigurgeirsdóttir. 2021. The impact of school bullying on adolescent migration intentions. Population, Space and Place, https://doi.org 10.1002/psp.2422.