Endurskoðun atvinnu- og byggðakvóta

Þóroddur Bjarnason prófessor í félagsfræði við HA var formaður starfshópsins
Þóroddur Bjarnason formaður nefndarinnar afhendir Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegsráðherra, sk…
Þóroddur Bjarnason formaður nefndarinnar afhendir Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegsráðherra, skýrsluna

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur birt niðurstöður starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um endurskoðun á meðferð og úthlutun 5,3% allra aflaheimilda til strandveiða, byggðakvóta, línuívilnunar, rækju- og skelbóta og veiða í tengslum við ferðaþjónustu. Áætlað aflaverðmæti þeirra eru 5,5–7,6 milljarðar króna á ári hverju.

Þóroddur Bjarnason prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri var formaður starfshópsins. Aðrir þátttakendur í starfshópnum voru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir alþingismaður, Bergþóra Benediktsdóttir aðstoðarmaður forsætisráðherra, Gunnar Atli Gunnarsson aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Þorsteinn Víglundsson alþingismaður.

Helstu tillögur starfshópsins eru eftirfarandi:

  • Tilgangur og markmið atvinnu- og byggðakvóta verði skýrð í lögum og árangur þeirra metinn.
  • Áhersla verði lögð á stuðning við smærri sjávarbyggðir í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
  • Að ótvírætt sé að 5,3% aflaheimilda eru dregin frá heildarafla í hverri tegund vegna atvinnu- og byggðakvóta áður en aflaheimildum er úthlutað á einstök skip.
  • Innbyrðis skipting þeirra 5,3% aflaheimilda sem dregin eru frá heildarafla í hverri tegund vegna atvinnu- og byggðakvóta verði fest til sex ára.
  • Almennum byggðakvóta verði úthlutað til sex ára í samræmi við meðaltal fyrri ára og svigrúm aukið til að nýta hann í samræmi við aðstæður á hverjum stað.
  • Ónýttri línuívilnun verði úthlutað sem almennum byggðakvóta í samræmi við hlutdeild einstakra byggðarlaga á undangengnum árum.
  • Gert verði upp við handhafa skel- og rækjubóta og þær aflaheimildir renni í varasjóð til að bregðast við óvæntum áföllum í sjávarbyggðum.

Jafnframt gerir starfshópurinn ýmsar tillögur um minni breytingar á fyrirkomulagi almenns byggðakvóta, sértæks byggðakvóta, línuívilnunar, strandveiða og frístundaveiða í tengslum við ferðaþjónustu.

Nánar má lesa um niðurstöður starfshópsins hér.