Endurskoðun stefnu Íslands í málefnum norðurslóða

Þingmenn allra flokka hafa skilað af sér tillögum til utanríkisráðherra
Endurskoðun stefnu Íslands í málefnum norðurslóða

Á dögunum tók Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við tillögum nefndar þingmanna úr öllum flokkum sem falið var að endurskoða stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Á grundvelli tillagna nefndarinnar mun utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra leggja fram á næstunni tillögu til þingsályktunar um nýja norðurslóðastefnu.

Í tillögunni kemur meðal annars fram:

Að efla Akureyri enn frekar sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi, m.a. með stuðningi við mennta- og rannsóknastofnanir og þekkingarsetur, og að efla innlent samráð og samstarf um málefni norðurslóða.

Nefndinni var falið að fjalla um málefni norðurslóða út frá víðu sjónarhorni, s.s. vistfræðilegu, efnahagslegu, pólitísku og öryggislegu. Hélt nefndin alls sautján fundi og ráðfærði sig við fjölda sérfræðinga og hagaðila. Nefndarmönnum gafst einnig kostur á að taka þátt í heimsókn utanríkisráðherra til Akureyrar í maí 2020, þar sem umræðufundir voru haldnir með þátttöku fjölmargra aðila sem koma að norðurslóðastarfi á Norðurlandi.