Fjarkennsla í neyðartilvikum

Hefðbundið fjarnám – eða sveigjanlegt nám eins og í HA – er ekkert í líkingu við það.
Fjarkennsla í neyðartilvikum

Auðbjörg Björnsdóttir, forstöðumaður Kennslumiðstöðvar Háskólans á Akureyri (KHA), hefur að undanförnu vakið athygli á því að fjarnámið sem sumir grunn-, framhalds- og háskólar á landinu þurftu að grípa til vegna heimsfaraldursins eigi ekkert skylt við fjarnám sem skólar hér á landi hafi verið að byggja upp í mörg ár.

„Gott fjarnám þarf margra ára undirbúning og byggir á gagnvirkum samskiptum kennara og nemenda. Námið er krefjandi, fjölbreytt og árangursríkt sé vandað til verksins,“ segir Auðbjörg.

Hætta sé á að nemendur sem stunduðu þetta fjarnám á síðustu mánuðum líti svo á að þannig sé eiginlegt fjarnám. Það sé lakara í gæðum en staðarnám en því fer fjarri.

„Sveigjanlegt nám (e. flexible learning) eins og það sem er í boði við Háskólann á Akureyri gefur fólki kost á að stunda vandað háskólanám hvar sem það býr á landinu óháð stöðu og efnahag. Ef við viljum styðja við byggð í landinu öllu þurfum við að bjóða fólki upp á nám í þeirra heimabyggð. Enda sýna rannsóknir að fólk sem hefur aðgang að námi í heimabyggð er líklegra til að búa þar áfram fimm árum síðar,“ segir Auðbjörg.