Framtíð Ittoqqortoormiit

Rachael Lorna Johnstone, prófessor við lagadeild, ferðast til Grænlands
Framtíð Ittoqqortoormiit

Rachael Lorna Johnstone fór nú í október ásamt syni sínum til Ittoqqortoormiit á Grænlandi til að ræða við heimamenn um hvernig þau sjá fyrir sér framtíð staðarins. Í ferð sinni tók hún viðtöl og heimsótti ýmsa staði sem eru mikilvægir í samfélaginu svo sem skóla, söfn og heimili fjölskyldna. Ferðin fékk styrk frá rannsóknarsjóði HA.

Í grennd við bæinn eru kolanámur og kolvetnisrannsóknir stundaðar. Heimamenn sjá bæði tækifæri og hættur vegna þessara verkefna. Þeir eru hins vegar ósáttir við skort á upplýsingum varðandi starfsemina og hvað þau sem koma að henni láta sjaldan sjá sig í bænum. Á fundi sem fyrirtækin héldu fyrir heimamenn lýstu hinir síðarnefndu yfir áhuga á atvinnutækifærum og þeirri þjálfun sem boðið er upp á til að komast í vinnu hjá fyrirtækjunum. Umhverfisáhrif og verndun dýralífs voru einnig mikið rædd atriði. Þá var nefnd á fundinum sú von að fyrirtækin gætu unnið með bænum að bætingu úrgangsstjórnunar vegna þeirra aukningar á úrgangi sem fylgir vaxandi fjölda starfsmanna fyrirtækjanna.

Ferðaþjónusta, veiði og opinberi geirinn eru enn mikilvægustu þættir atvinnulífsins í bænum. Kolanámurnar geta hins vegar haft í för með sér endurbætur eða skerðingu á ferðatengslum bæjarins. Ferðaþjónustan á svæðinu einkennist af utanaðkomandi aðilum, skemmtiferðaskipum og ævintýraferðamennsku. Hins vegar er á áætlun að þróa staðbundnari vörur og það er t.d. aukin eftirspurn eftir heimagistingu hjá fjölskyldum sem búa á staðnum. Einnig er leitast við að bæta þjálfun og menntun varðandi öryggi til að mæta þessum væntingum gesta. Heimamenn sjá jafnframt tækifæri á samvinnu jarðefnavinnslufyrirtækjanna og efla þá um leið ferðaþjónustuna, t.d. með því að bæta flutningatengsl. Heimamenn vona líka að verkefnið geti komið á fjárfestingum í tengslum við flugvöllinn í grenndinni, Nerlerit Inaat. Hins vegar er óttast að í staðinn stækki Mestersvig flugvöllur og að um leið aukist þjónusta við hann, en hann er 180 km norðar. Líklegt er að það þýddi að þjónusta við Nerlerit Inaat minnkaði.

Veiðar á moskusuxum, ísbjörnum, náhvelum og selum eru grundvallaratriði til að bærinn lifi af. Vandamálið er hins vegar kvótakerfið sem er hannað út frá evrópskum meginreglum og gildum sem henta ekki svæðinu. Á Grænlandi eru einnig í gildi lög sem banna útflutning matvæla til Grænlendinga í Danmörku og skera því á menningu þeirra. Fólk veiðir hefðbundna fæðu sem er þeim nauðsynleg í menningarlegu tilliti, ásamt því að vera næringarrík. Hlýnun jarðar er að minnka möguleika á veiði og hefur það áhrif á næringu og menningu heimamanna.

Heimamenn eru því á ákveðnum tímamótum í tengslum við ný fyrirtæki á svæðinu og hlýnun jarðar. Lifnaðarhættir og menning þeirra gæti því tekið töluverðum breytingum næstu ár.

Nánari frásögn frá ferðinni má finna hér.