Frú Vigdís Finnbogadóttir heiðursdoktor við HA

Heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri veitir frú Vigdísi Finnbogadóttur heiðursdoktorsnafnbót á sviði heilbrigðisvísinda.
Frú Vigdís Finnbogadóttir heiðursdoktor við HA

Þann 8. nóvember næstkomandi verður frú Vigdís Finnbogadóttir sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Háskólann á Akureyri.

Frú Vigdís Finnbogadóttir hefur haft mikil alþjóðleg áhrif með störfum sínum og hefur ávalt sýnt hlýju og ræktarsemi við æsku landsins. Heiðursdoktorsnafnbótina hlýtur hún fyrir víðtæk jákvæð samfélagsleg áhrif meðal annars á íslenska tungu, menningu og listir, jafnrétti og skógrækt, ásamt heilbrigðis- og líknarmálum.

Vigdís Finnbogadóttir fæddist í Reykjavík 15. apríl árið 1930. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1949. Á árunum 1949 til 1953 stundaði Vigdís nám í frönsku og frönskum bókmenntum við Háskólann í Grenoble, síðar nam hún leiklistarsögu við Kaupmannahafnarháskóla. Vigdís útskrifaðist með BA gráðu í frönsku og ensku auk náms í kennslufræðum frá Háskóla Íslands.

Vigdís hefur stutt sérstaklega við hjúkrunarfræðinga og er heiðursfélagi í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga en móðir hennar var formaður Félags hjúkrunarkvenna um árabil.

Í tilefni af veitingu heiðursnafnbótarinnar verður haldið málþing undir yfirskriftinni „Vigdís Finnbogadóttir: Hin víðtæku áhrif” við Háskólann á Akureyri föstudaginn 8. nóvember 2019 kl. 10 – 12 þar sem fræðimenn og vinir víða að munu fjalla um ævi og störf Vigdísar. Í framhaldi af málþinginu verður blásið til hátíðar í hátíðarsal skólans kl. 15 – 16 þar sem Vigdísi verður veitt heiðursdoktorsnafnbót.

SKRÁNING HÉR