Frú Vigdís Finnbogadóttir heiðursdoktor við HA: Við skulum mæta mótvindi með reisn

Sæmd heiðursdoktorsnafnbót við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri
Frú Vigdís Finnbogadóttir heiðursdoktor við HA: Við skulum mæta mótvindi með reisn

Í dag var frú Vigdís Finnbogadóttir sæmd heiðursdoktorsnafnbót frá heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri. Að tilefni þess var blásið til málþings sem bar yfirskriftina „Vigdís Finnbogadóttir: Hin víðtæku áhrif“. Að lokinni setningu Eydísar Kr. Sveinbjarnardóttur, forseta heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri, fjölluðu vinir og fræðimenn víða að um líf og ævistarf Vigdísar.

Fyrstur til máls tók forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem fjallaði um gamansaman hátt um embættistíð Vigdísar og þar með talið fyrstu veislu sem Vigdís sat sem forseti Íslands í Kristjánsborgarhöll í Danmörku. Spurð útí það hvernig handritin hefðu það á Íslandi svaraði Vigdís um hæl:

„Við fórum með handritin eins og ungabörn, tökum þau fram á hverjum morgni, lesum þau allan daginn og leggjum þau til svefns á kvöldin - í eldtraustum skápum“. Ávarp forseta Íslands má lesa hér.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fór yfir jarðveginn sem Vigdís plægði og nefndi m.a. að þegar Vigdís var kjörin þá voru einungis þrjár konur á Alþingi og 57 karlar. Hún sagði Vigdísi hafa skilið þjóðina vel og verið framsækna í hugsun.

Síðan tók til máls Marta Nordal sem fjallaði um mikilvægi Vigdísar fyrir leikhúsið. Framsýni hennar í sinni leikhússtjóratíð sannar sig enn þann dag í dag þar sem val á leiksýningum þarf að hafa vissa breidd til að afla tekna. Áhugavert er hversu lítið sem ekkert búið er að rannsaka fyrsta kvenleikhússtjórann, Vigdísi Finnbogadóttur.

Finnur Friðriksson, dósent í kennaradeild, fjallaði um málheima Vigdísar og tengsl hennar við móðurmálið svo og önnur tungumál. Á næstu 50 árum munu um helmingur núverandi tungumála deyja út og þá er hætta á að menningin fljóti með. Ræðu Finns má lesa hér

Því næst tók Brynhildur Bjarnadóttir, dósent við kennaradeild, til máls og tók fyrir Vigdísi og umhverfismálin. Auk þess að fara yfir söguna um skógrækt og landgræðslu rakti hún söguna um það hvernig Vigdís vakti með þjóðinni ræktunar- og útivistaráhuga. Það séu ófá landsvæði sem Vigdís hefur ekki gróðursett í. Ræðu Brynhildar má lesa hér.

Þá næst steig í pontu Tryggvi Hallgrímsson, sérfræðingur á Jafnréttisstofu. Hann taldi það fyrir víst að Vigdís hafi meira en nokkur annar haft áhrif á það hvað konur og karlar geta gert. Henni tókst að halda sviðsljósinu á jafnrétti alla sína tíð. Ræðu Tryggva má lesa hér.

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, fór yfir tengsl Vigdísar við hjúkrunarfræði í gegnum störf móður Vigdísar, Sigríðar Eiríksdóttur. Á þeim vettvangi kynntist Vigdís aðstöðu fátækra með heimsóknum til þeirra sem hafði mikil áhrif á hana.

Að lokum tók til máls Pétur Halldórsson sem ber titilinn Framúrskarandi ungur Íslendingur 2019 og er líffræðingur að mennt. Hann túlkaði sjálfbæra þróun sem rauða þráðinn í starfi Vigdísar og beindi sviðsljósinu að ungu fólki á Norðurslóðum og mikilvægi Vigdísar sem fyrirmyndar í þeim efnum sem og í öðru. Ræðu Péturs má lesa hér

Því næst flutti eldri barnakór Akureyrarkirkju þrjú lög við mikinn fögnuð viðstaddra.

 

Eftir hádegi fór fram formleg athöfn þar sem Vigdís tók við heiðursdoktorsnafnbótinni. Prófessor Sigríður Halldórsdóttir hélt heiðursræðu og sviðsforseti, Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir, færði Vigdísi heiðurskragann ásamt hólki með skjölum heiðursdoktorsnafnbótarinnar auk gullnælu Háskólans á Akureyri. Vigdís hélt svo þakkaræðu sem má lesa hér.

Tónlistin var í öruggum höndum strengjakvartetts sem skipaður var Marcin Lazarz, fiðla, Tomasz Kolosowski, fiðla, Eydís Úlfarsdóttir, víóla, og Ásdís Arnardóttir, selló.

Háskólinn á Akureyri er þakklátur og stoltur af nýjum heiðursdoktor, þeim fimmta frá stofnun skólans.

 

Myndirnar tók Daníel Starrason.