Giorgio Baruchello fjallar um Big data, fagmennsku og ótiltekna þekkingu

Kafli eftir Giorgio í bókinni Big Data: Promise, Application and Pitfalls
Giorgio Baruchello fjallar um Big data, fagmennsku og ótiltekna þekkingu

Út er komin bók hjá útgáfunni Edward Elgar, Big Data: Promise, application and pitfalls, sem John Storm Pedersen (Syddansk Universitet) og Adrian Wilkinson (Griffith University) ritstýrðu. Í bókinni greinir hópur alþjóðlegra sérfræðinga helstu einkenni deilnanna um Big Data og raunveruleg áhrif þeirra í ólíkum geirum. Þeir skoða einnig hvort Big Data og stafræna samfélagið geti staðið við gefin loforð.

Einn kafli í bókinni er eftir Giorgio Baruchello, prófessor við Háskólann á Akureyri, sem heitir „Big Data og fagfólk: Hvað er hægt að læra af Michael Polanyi?“. Michael Polanyi var allt í senn læknir, þekktur efnafræðingur, frægur félagsvísindamaður og frumlegur heimspekingur, hann er nú á tímum einkum þekktur fyrir hugmyndir sínar um ótiltekna vitneskju. Giorgio notar þessar hugmyndir til þess að sýna hvers vegna vélar séu ekki færar um að leysa fagfólk algerlega af hólmi. Hugleiðingar Polanyi um rökfræði Frege og Turing-vélina eru lykilatriði í þessari umræðu. Kenning Polanyi getur hjálpað okkur að skilja hvers vegna og hvernig fagfólk verði mögulega látið víkja fyrir sjálfvirkum kerfum þegar um er að ræða afmarkaðar athafnir, en ekki þeim sem krefjast sköpunar, mats á rekstrarlegum þáttum og ábyrgrar notkunar.