HA á Arctic Circle

Alþjóðaþing Hringborðs norðurslóða haldið í sjöunda sinn
HA á Arctic Circle

Arctic Circle var haldið í sjöunda sinn dagana 10.-13. október. Þar var rætt um framtíð Norðurslóða en þingið sóttu um 2000 þátttakendur frá yfir 50 löndum, ráðherrar og fulltrúar fjölmargra ríkja, forystumenn vísindastofnana og stjórnendur fyrirtækja, leiðtogar frumbyggja og umhverfissamtaka. Meginhluti dagskrárinnar fór fram í Hörpu, Reykjavík, en fyrsti forviðburður þingsins að þessu sinni var hins vegar haldinn í Hofi á Akureyri. Að honum stóðu Háskólinn á Akureyri, Sendiskrifstofa Grænlands á Íslandi og Akureyrarbær.

Auk Viktoríu krónprinsessu af Svíþjóð, flutti stjórnarformaður Arctic Circle, Ólafur Ragnar Grímsson, og forsætisráðherrar Íslands, Finnlands og Grænlands, Katrín Jakobsdóttir, Antti Rinne og Kim Kielsen ræður á þinginu ásamt heimsþekktum vísindamönnum og forystumönnum umhverfissamtaka. Alls voru 188 málstofur á þingi Arctic Circle með um 600 ræðumönnum og fyrirlesurum.

Háskólinn á Akureyri var með fjölmarga þátttakendur eins og undanfarin ár. Einnig voru nemendur háskólans ötulir sjálfboðaliðar, bæði hjá Arctic Circle og á bás HA.