HA fær styrki úr Nýsköpunarsjóði námsmanna

Verkefnin HÖNNÍN – Nýsköpun í Norðri og Gagnagrunnur um sjúkraflug 2011-2020 hljóta styrki
HA fær styrki úr Nýsköpunarsjóði námsmanna

Fyrri úthlutun úr Nýsköpunarsjóði Námsmanna 2020 var kynnt á dögunum og hlutu þar tvö verkefni við Háskólann á Akureyri styrki. Verkefnin HÖNNÍN - Nýsköpun í Norðri og Gagnagrunnur um sjúkraflug 2011-2020. Sjóðurinn er fjármagnaður með framlögum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og hefur það markmið að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í grunn- og meistaranámi við háskóla til sumarvinnu við metnaðarfull og krefjandi rannsóknarverkefni. 

Verkefnið HÖNNÍN – Nýsköpun í Norðri er samstarf á milli Listaháskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Þekkingarnets Þingeyinga og er hluti af verkefninu Nýsköpun í norðri, samstarfsverkefni Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps. Alls eru fjórir nemendur sem koma að verkefninu en leiðbeinendur eru Rúna Thors, fagstjóri í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands, Anna María Bogadóttir lektor í arkitektúr við Listaháskóla Íslands, Rannveig Björnsdóttir forseti viðskipta- og raunvísindasviðs við Háskólann á Akureyri og Sveinn Margeirsson verkefnisstjóri NÍN. Í verkefninu verður gengið út frá því að nýta aðferðarfræði hönnunar og þekkingu á líftækni í samtali við íbúa Þingeyjarsýslu. Þá verða markmið í loftslagsmálum og nýsköpun í matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu áhersluatriði verkefnisins. Nemendur munu vinna með leiðbeinendum að framkvæmd aðgerðaáætlunar rýnihópa NÍN, en sú aðgerðaáætlun byggir á niðurstöðum 12 íbúafunda sem haldnir voru á vegum NÍN á tímabilinu ágúst 2019 - janúar 2020. 

Gagnagrunnur um sjúkraflug 2011-2020 er verkefni sem inniheldur 10 ára rafrænan gagnagrunn um öll sjúkraflug með sjúkraflugvél frá Akureyri. Þessi gögn má nýta til ýmiskonar gæðaverkefna og faraldsfræðilegra rannsókna og jafnvel tengja við aðra gagnagrunna. Eins og vænta má er talsvert um villur, t.d. innsláttarvillur, og því nauðsynlegt að framkvæma villuleit. Verkefnið snýst meðal annars um þessa villuleit, en einnig verða búin til litakort (choroplerh) sem sýna notkun sjúkraflugs eftir landshlutum, að teknu tilliti til íbúafjölda. Björn Gunnarsson, dósent við heilbrigðisvísindastofnun HA, hefur umsjón með verkefninu.

Hægt er að sækja um styrk hjá Nýsköpunarsjóði námsanna til 4. maí á vefsíðu Rannís