HA tók ríkan þátt í Menntakviku

Árleg ráðstefna um menntavísindi
HA tók ríkan þátt í Menntakviku

Menntakvika, árleg ráðstefna um menntavísindi, var haldin 4. október við Háskóla Íslands. Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar var Kristján Kristjánsson prófessor og aðstoðarforstjóri Jubilee rannsóknarsetursins um mannkosti og dygðir við Háskólann í Birmingham. Kristján starfaði lengi við kennaradeild Háskólans á Akureyri og á 25 ára afmæli deildarinnar var undirritaður samningur við Kristján um að gerast gestaprófessor við HA. Á Menntakviku fjallaði Kristján um farsæld sem markmið menntunar.

Segja má að Háskólinn á Akureyri hafi tekið mjög ríkan þátt í ráðstefnunni, ekki síst kennaradeildin. Hér fylgir stutt yfirlit um þátttakendur frá HA á Menntakviku og inntak erinda þeirra en erindin gefa góða innsýn í hversu fjölbreytilegar rannsóknir eru gerðar í HA.

 • Anna Elísa Hreiðarsdóttir, lektor í kennaradeild HA, fjallaði um lærdómssamfélagið og leikskólann. Erindið var hluti af heildstæðri málstofu um lærdómssamfélag í leikskóla undir merkjum LeikA sem er tilvísun í leikskólafræði við HA.
 • Anna Ólafsdóttir, dósent í kennaradeild HA, ásamt Guðrúnu Geirsdóttur HÍ og Valgerði Bjarnadóttur nýdoktor við HA, fjölluðu um áskoranir og ávinning af þátttöku nemendafulltrúa í háskólum sem meðrannsakendur.
 • Auðbjörg Björnsdóttir forstöðumaður Kennslumiðstöðvar HA, ásamt Helenu Sigurðardóttur kennsluráðgjafi við Kennslumiðstöð HA, fjölluðu um þróun háskólakennslu við HA.
 • Birna Svanbjörnsdóttir, lektor í kennaradeild HA, ásamt Rúnari Sigþórssyni prófessor í kennaradeild HA og Önnu Kristínu Sigurðardóttur HÍ, fjölluðu um gæði kennslu á unglingastigi í tengslum við norræna rannsókn á gæðum kennslu (QUINT).
 • Bragi Guðmundsson, prófessor í kennaradeild HA, ásamt Atla Má Sigmarssyni meistaranema við kennaradeild HA, fjölluðu um stöðu sögunnar í framhaldsskóla – námsframboð og viðhorf sögukennara í kjölfar styttingar náms til stúdentsprófs.
 • Brynhildur Bjarnadóttir, dósent í kennaradeild HA, ásamt Margréti Þóru Einarsdóttur verkefnisstjóra frá Kennslumiðstöð HA, fjölluðu um samþættingu námsgreina í kennaradeild.
 • Brynhildur Þórarinsdóttir, dósent í kennaradeild HA, fjallaði um kennaranema sem gerast lestrarhvetjendur – hagnýtingu rannsókna á íslensku í grunn- og framhaldsskólum.
 • Guðmundur Engilbertsson, lektor í kennaradeild HA, fjallaði um menntapólitísk átök í umfjöllun um Byrjendalæsi á vef- og prentmiðlum haustið 2015.
 • Helena Sigurðardóttir, kennsluráðgjafi við Kennslumiðstöð HA, og Auðbjörg Björnsdóttir forstöðumaður Kennslumiðstöðvar HA, fjölluðu um upplifun notenda á fjærverum í HA.
 • Hjördís Sigursteinsdóttir, dósent í viðskiptadeild HA, fjallaði um samspil vinnu og einkalífs meðal starfsfólks í leik- og grunnskólum hjá íslenskum sveitarfélögum.
 • Jórunn Elídóttir, dósent í kennaradeild HA, fjallaði um leikskólann sem lærdómssamfélag í gegnum þróunarverkefni. Erindið var hluti af heildstæðri málstofu um lærdómssamfélag í leikskóla undir merkjum LeikA, sem er tilvísun í leikskólafræði við HA.
 • Kristín Dýrfjörð, dósent í kennaradeild HA, fjallaði um leikinn sem lærdómssamfélag. Erindið var hluti af heildstæðri málstofu um lærdómssamfélag í leikskóla undir merkjum LeikA sem er tilvísun í leikskólafræði við HA.
 • Sveinbjörg Björnsdóttur leikskólakennari og Anna Margrét Jóhannesdóttir stjórnsýslufræðingur fjölluðu um lærdómssamfélag í leikskólum og tengsl við starfsánægju. Erindið var hluti af heildstæðri málstofu um lærdómssamfélag í leikskóla undir merkjum LeikA sem er tilvísun í leikskólafræði við HA. Sigríður Margrét Sigurðardóttir, lektor í kennaradeild HA, var meðhöfundur erindis.
 • Sólveig Zophoníasdóttir, aðjúnkt í kennaradeild HA og sérfræðingur í menntavísindum við miðstöð skólaþróunar HA, fjallaði um kennslu á tímum umbreytinga – að skapa starfsþróunarvettvang í skólum sem leggja áherslu á notkun stafrænnar tækni í kennslu. Erindið var hluti af heildstæðri málstofu um gæði kennslu á Norðurlöndum (QUINT).
 • Valgerður Bjarnadóttir, nýdoktor við HA, ásamt Hólmfríði Þorgeirsdóttur grunnskólakennara og Hildi Hauksdóttur framhaldsskólakennara, fjölluðu um upplifun nýliða í kennslu af undirbúningi og stuðningi er hvað varðar foreldrasamstarf.
 • Valgerður Bjarnadóttir, ásamt Guðrúnu Ragnarsdóttur frá HÍ, fjölluðu einnig um kröfu um skilvirkni í framhaldsskólanum – viðhorf skólastjórnenda og kennara til fjölbreytts nemendahóps í ljósi dreifingar á fjármagni.
 • Þá fjallaði Valgerður Bjarnadóttir, ásamt Guðrúnu Ragnarsdóttur, um áskoranir og ávinning framhaldsskóla í dreifðum byggðum, frá sjónarhóli nemenda, kennara og stjórnenda.
 • Þorlákur Axel Jónsson, aðjúnkt í kennaradeild HA, fjallaði um búsetumun á námsárangri þegar ólík þjóðfélagsstaða er tekin með í reikninginn.