HA fyrirferðarmikill á Háskóladeginum

Skemmtileg samtöl við væntanlega nemendur
HA fyrirferðarmikill á Háskóladeginum

Háskóladagurinn fór fram í 16 skiptið í Reykjavík í gær, laugardaginn 29. febrúar. Námskynningar fóru fram í Listaháskólanum, Háskólanum í Reykjavík og í Háskóla Íslands þar sem HA var með aðsetur á neðri hæð Háskólatorgs.

Fulltrúar HA létu slæmt veður og röskun á flugi ekki stoppa sig og stóðu um 30 manns vaktina í HÍ, bæði nemendur og starfsfólk. Fjöldi fólks kynnti sér nám HA og spjölluðu við nemendur allra námsgreina og starfsfólk skólans. Fulltrúar HA dreifðu nýjum námshyrnum í stað bæklinga. Með námshyrnunum geta nemendur velt fyrir sér styrkleikum sínum til að auðvelda sér námvalið.

Fjarkennsluvélmenni HA sýndu enn og aftur mikilvægi sitt. Starfsmenn og nemendur háskólans sem ekki komust á kynninguna vegna röskunar á flugi gátu tekið þátt í gegnum fjærveru og spjallað við gesti.

„Sveigjanlega námið við Háskólann á Akureyri hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár og veitir formið nemendum aðgengi að háskólamenntun óháð stað. Námsformið hentar því vel inni í nútíma samfélag. Kröfurnar eru hins vegar miklar. Nemendur verða að vera tilbúnir til þess að leggja mikið á sig og skipuleggja tíma sinni vel því það þarf að gera ráð fyrir 50 til 60 tíma vinnuviku fyrir fullt nám. Einnig þarf að gera ráð fyrir tíma fyrir andlega og líkamlega heilsu samhliða náminu. Fáir staðir eru betri en Akureyri til að njóta útivistar og náttúru. Sama hvort þú velur að koma í skíða- og útivistarparadísina Akureyri eða stundar námið frá þinni heimabyggð þá mun tíminn við HA verða bæði þroskandi og skemmtilegur.“ segir Eyjólfur Guðmundsson rektor Háskólans á Akureyri.

Í heildina frábær dagur og erum við ákaflega spennt að kynna námsframboð okkar enn frekar á Háskóladeginum 7. mars í HA þar sem allir háskólarnir verða saman komnir í fyrsta sinn. Ásamt fjölbreyttu námsframboði allra skólana verður boðið upp á skemmtilega og fræðandi dagskrá fyrir alla fjölskylduna.