Háskólinn á Akureyri ætlar að stíga Grænu skrefin

Öll berum við ábyrgð á umhverfimálum við háskólann og í okkar daglega lífi. Verkefni á borð við Græn skref í ríkisrekstri veita okkur aðhald til þess.
Háskólinn á Akureyri ætlar að stíga Grænu skrefin

Græn skref er leið fyrir opinbera aðila til að vinna markvisst að umhverfismálum eftir skýrum gátlistum og fá viðurkenningu eftir hvert skref sem er tekið.  

Þær aðgerðir sem Grænu skrefin ná til snerta sex þætti sem hafa áhrif á umhverfið og eru innleidd í fjórum áföngum. Fimmta skrefið er viðbót við Græn skref Reykjavíkurborgar og sýnir helstu aðgerðir sem þarf að innleiða til að byggja upp umhverfisstjórnunarkerfi. 

Flokkar grænna skrefa eru: 

 • Innkaup
 • Miðlun og stjórnun
 • Fundir og viðburðir
 • Flokkun og minni sóun
 • Rafmagn og húshitun
 • Samgöngur     

Markmið verkefnisins er að: 

 • Gera starfsemi ríkisins umhverfisvænni 
 • Auka vellíðan starfsmanna og bæta starfsumhverfi þeirra 
 • Draga úr rekstrarkostnaði 
 • Innleiða áherslur í umhverfismálum sem þegar hafa verið samþykktar 
 • Stofnanir, ráðuneyti og annar ríkisrekstur fái viðurkenningu fyrir metnað sinn í umhverfismálum 
 • Stofnanir, ráðuneyti og annar ríkisrekstur geti innleitt aðgerðir á mismunandi hátt eftir umfangi og eðli starfseminnar 
 • Aðgerðir stofnana í umhverfismálum séu sýnilegar 

Hjalti Jóhannesson, formaður umhverfisráðs HA telur að þátttaka háskólans í Grænum skrefum í ríkisrekstri sé mikið framfaraskref í umhverfismálum við háskólann. Nú þegar sé háskólinn búinn að innleiða stóran hluta þess sem ætlast er af stofnuninni samkvæmt þessu en skólasamfélagið allt mun verða vart við verkefnið með aukinni fræðslu ásamt auknu kynningarefni á næstu mánuðum. Öll berum við ábyrgð á umhverifsmálum við háskólann og í okkar daglega lífi. Það á að vera okkur metnaðarmál að gera sífellt betur á þessu sviði. Verkefni á borð við Græn skref í ríkisrekstri veita okkur aðhald til þess. 

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á heimasíðu Grænna skrefa.