Háskólinn á Akureyri býður nýjan Nansen prófessor velkominn til starfa

Dr. Gunnar Rekvig hefur verið ráðinn í stöðu Nansen prófessors sem er gestaprófessorsstaða í heimskautafræðum við Háskólann á Akureyri.
Háskólinn á Akureyri býður nýjan Nansen prófessor velkominn til starfa

Staðan er kennd við Fridtjof Nansen, hinn kunna norska heimskautafræðing og húmanista, og er veitt framúrskarandi vísindamanni sem starfar að málefnum er tengjast lagalegum, hagrænum, félagslegum og náttúrufarslegum aðstæðum á norðurslóðum. Ráðið er í stöðuna til eins árs í senn, samkvæmt samkomulagi um samstarf á sviði heimskautafræða og rannsókna á milli Íslands og Noregs.

Gunnar Rekvig lauk MA-prófi í friðar- og átakafræðum frá Háskólanum í Tromsö (Norges Arktiske Universitet i Tromsø, UiT). Doktorsprófi í alþjóðafræðum lauk hann frá TUFS-háskóla (Tokyo University of Foreign Studies) í Tokyo árið 2017. Gunnar Rekvig starfar nú við Háskólann í Tromsö sem dósent í alþjóðastjórnmálum, með áherslu á norðurslóðir og Rússland. Frekari upplýsingar um Gunnar Rekvig má finna hér.

Gunnar Rekvig flytur fyrirlestur fimmtudaginn 28. nóvember kl. 12 í tilefni af ráðningu í starf Nansen prófessors í heimskautafræðum.