Háskólinn á Akureyri hlaut á dögunum jafnlaunavottun

Vottunin staðfestir að Háskólinn á Akureyri vinnur markvisst gegn kynbundnum launamun
Háskólinn á Akureyri hlaut á dögunum jafnlaunavottun

Með jafnlaunavottun er staðfest að Háskólinn á Akureyri uppfyllir kröfur jafnlaunastaðalsins. Vottunin staðfestir að Háskólinn á Akureyri vinnur markvisst gegn kynbundnum launamun og hagar stjórnun jafnlaunamála á þann hátt að launaákvarðanir byggi á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun. Með innleiðingu jafnlaunastaðalsins, skilgreiningum verkferla, rýni gagna og umbótum hefur Háskólinn á Akureyri náð þessum áfanga.

Verkefninu er þó hvergi nærri lokið því staðallinn kveður á um árlegar launagreiningar og stöðugar umbætur í samræmi við bæði launastefnu skólans og áætlun um jafna stöðu kynjanna. Verkefnið hefur þegar hjálpað okkur að skýra verklag og draga fram úrbótatækifæri sem mun hjálpa okkur að uppfylla markmið okkar um jafnrétti enda er það eitt af gildum Háskólans á Akureyri.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er gert ráð fyrir að aðeins um 63% opinberra stofnana hafi náð þessari vottun nú fyrir áramót, en markmiðið var að allar opinberar stofnanir hefðu lokið þessari vinnu á tilsettum tíma.

Jafnlaunavottunin er afrakstur innri og ytri úttekta sem fram fóru á haustmánuðum 2019. Aðalúttekt fór fram þann 5. nóvember síðastliðinn af hendi BSI á Íslandi sem er faggilt vottunarstofa og nú í vikunni barst loks formleg staðfesting á vottun frá Jafnréttisstofu sem heimilar okkur notkun á hinu eftirsótta merki jafnlaunavottunar.