Hert aðgangsviðmið að Háskólanum á Akureyri

Til að tryggja áfram bestu gæði náms og sérstöðu sem persónulegur háskóli.
Hert aðgangsviðmið að Háskólanum á Akureyri

Aðsókn í Háskólann á Akureyri hefur farið stigvaxandi undanfarin ár. Á aðeins 10 árum hefur nemendafjöldi nærri tvöfaldast og er það mikið gleðiefni. Gæði náms og sveigjanlega námsformið höfðar augljóslega vel til fólks.

Til að tryggja áfram bestu gæði náms mun HA þurfa að beita aðgangstakmörkunum í skólann í fyrsta skipti heilt yfir. Þetta er fyrir utan klásus leiðir (sálfræði, diplómanám í lögreglufræði og hjúkrunarfræði). Ekki verður lengur í boði að innritast á fyrsta ár BA náms í lögreglufræði þar sem diplómanám í lögreglu- og löggæslufræði hefur verið gert að undanfara.

Það er mismunandi eftir námsleiðum hvernig takmarkanirnar verða en helstu punktarnir eru að stúdentspróf hefur forgang, aðeins er tekið við fullgerðum umsóknum og þeir umsækjendur sem skila inn ferilskrá (CV) og kynningarbréfi geta aukið líkur sínar á inntöku komi til almennra takmarkana á viðkomandi námsleið (á ekki við um klásus leiðir).

„Á síðustu árum hefur aðsókn í HA aukist verulega og aukinn nemendafjöldi hefur þýtt aukið álag á allt starfsfólk skólans. Nú erum við komin að þolmörkum fyrir skólann í heild sinni og þurfum að grípa til þessara aðgerða til að draga úr nemendafjölda og þannig minnka heildarálag. Þannig getum við áfram haldið uppi gæðum námsins og orðspori hans sem persónulegs skóla,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor við Háskólann á Akureyri.

Umsækjendur sem vilja skila inn ferilskrá og kynningarbréfi er bent á að hafa samband við þjónustuborð nemendaskrár til að skila inn gögnunum. Öllum umsóknum verður svarað 12. júní en umsækjandi getur fylgst með umsókninni með veflykli, t.d. hvort viðbótargögn sem send voru póstleiðina hafi skilað sér.