Hlutfall háskólamenntaðra tvöfalt hærra á höfuðborgarsvæðinu

Háskólinn á Akureyri dregur úr menntabili milli landshluta
Hlutfall háskólamenntaðra tvöfalt hærra á höfuðborgarsvæðinu

Nýbirt rannsókn Þórodds Bjarnasonar, prófessors í félagsfræði við Háskólann á Akureyri, sýnir mikinn mun á háskólamenntun eftir landshlutum. Á höfuðborgarsvæðinu hefur um 40% fólks á vinnumarkaði lokið háskólaprófi en almennt um 20% í öðrum landshlutum. Á Akureyri er hlutfallið um 30% og skýra brautskráðir nemendur frá Háskólanum á Akureyri að fullu þann mun á Akureyri og öðrum landsbyggðum.

Jafnframt sýna niðurstöður rannsóknarinnar að átta af tíu brautskráðum nemendum háskólanna í Reykjavík eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu en flestir brautskráðir nemendur landsbyggðaháskólanna eru búsettir í landsbyggðunum. Um þriðjungur brautskráðra nemenda frá Háskólanum á Akureyri er búsettur á höfuðborgarsvæðinu, um þriðjungur á Akureyri og um þriðjungur annars staðar á landinu.

Hlutdeild Háskólans á Akureyri er um helmingur allra háskólamenntaðra íbúa Akureyrar og um fjórðungur allra háskólamenntaðra íbúa annars staðar á norðurhluta landsins frá Vestfjörðum um Norðurland og Austurland. Hlutdeild HA er hins vegar mun minni á suðurhluta landsins frá Snæfellsnesi að Hornafirði.

Þóroddur segir ljóst að Háskólinn á Akureyri og aðrir landsbyggðaháskólar gegni lykilhlutverki í því að draga úr menntabili milli höfuðborgarsvæðisins og annarra landshluta. „Það er umhugsunarvert í ljósi þess að ríkisvaldið stýrir nemendafjölda við íslenska háskóla með fjárlögum og Háskólinn á Akureyri þarf til dæmis að vísa fjölda nemenda frá til að vera innan ramma fjárlaga“.

Greinina í heild sinni má lesa hér.