Kynjahallinn sífellt að aukast

Því sækja karlmenn minna í háskólanám?
Kynjahallinn sífellt að aukast

Nýlega birtist grein í The Washington Post þar sem fjallað var um kynjahalla í háskólum víða um heim þ.m.t. í íslenska háskólakerfinu. Þar eru í dag um 65% nemenda konur og 35% karlar. Þetta hefur verið ljóst um nokkurt skeið en ekki verið mikið í opinberri umræðu. Við Háskólann á Akureyri eru hlutföllin hinsvegar um 77% konur og 23% karlar sem helgast einkum af því að í greinum eins og hjúkrunarfræði og menntunarfræðum hefur kynjahlutfallið enn ekki náð að þróast í takt við tímann þannig að karlar séu að sækja í að starfa í þeim greinum. Þessi þróun er hinsvegar ekkert einsdæmi á Íslandi þó svo að hún sé meira afgerandi hér.

Það er kannski þess vegna sem erlendir blaðamenn hafa áhuga á þróuninni hér á landi eins og fram kemur í grein The Washington Post. Þar fjallar blaðamaðurinn Jon Marcus um þróunina á Íslandi og þær séríslensku aðstæður sem virðast hafa letjandi áhrif á að karlar sæki sér háskólamenntun. „Við höfum áhyggjur af þessari þróun af nákvæmlega sömu ástæðu og við höfðum áhyggjur af vöntun á háskólamenntun kvenna fyrir 30 árum,“ segir Eyjólfur í viðtali við Jon Marcus blaðamann.

Gera má ráð fyrir því að aðgengi að háskólanámi verði í framtíðinni ekki jafn sjálfsagt og verið hefur. Þetta sést glöggt hjá nágrannaþjóðum okkar þar sem innleidd hafa verið sameiginlegar umsóknargáttir til að fullnýta öll möguleg háskólapláss – og oft þurfa umsækjendur að tilgreina allt að 13 varafög (óháð skóla) fái þeir ekki inn í óskanámið. Ef grípa á til ráðstafanna til að fjölga karlmönnum í háskólum má slíkt ekki verða á kostnað kvenna með því að fækka þeirra tækifærum til að stunda háskólanám.

Greinin í The Washington Post