Minning um Finnboga Jónsson

Minning um Finnboga Jónsson

Það voru sorgleg tíðindi sem bárust frá Kanada í byrjun september þegar fréttist af skyndilegu fráfalli Finnboga Jónssonar. Finnbogi sat í háskólaráði Háskólans á Akureyri í þrjú tímabil frá 2012-2019. Fyrsta háskólaráðsfundinn sat hann í janúar 2013 og þann síðasta í maí 2019. Það var vel ljóst í störfum hans á vettvangi háskólaráðs HA að Finnboga var mjög annt um skólann. Hann skildi vel mikilvægi skólans fyrir uppbyggingu samfélaga á landsbyggðunum öllum og hlutverki HA meðal háskóla hér á landi. Reynsla hans af íslensku atvinnulífi og stjórnun nýtist vel innan þess fjölbreytta hóps sem er í háskólaráði á hverjum tíma. Hann var til fyrirmyndar í öllum samskiptum og ávann sér traust í þremur mismunandi háskólaráðum sem sýnir þá hæfileika sem hann hafði í mannlegum samskiptum.

Áhugi hans á nýsköpun og íslensku hugviti var jafnframt óþrjótandi og skildi hann vel mikilvægi þess að sjávarútvegurinn þróaðist áfram í hröðum heimi tæknibreytinga fjórðu iðnbyltingarinnar. Fjölbreytt reynsla hans úr kennslu, stofnunum, fyrirtækjum og stjórnarsetu var ómetanleg í störfum hans fyrir háskólaráð.
Finnbogi var jafnframt fyrirmynd fyrir okkur öll þegar kemur að því að njóta góðu stundanna í lífinu. Það var einstaklega skemmtilegt að fylgjast með honum á hinum víðfeðmu ferðalögum og fjallgöngum um heim allan með Berglindi, sínum trausta lífs- og ferðaförunaut. Með óþrjótandi áhuga á útivist, ferðalögum og fólki sýndu þau okkur sem yngri erum hvernig unnt er að njóta lífsins á öllum æviskeiðum – og stöðugt að læra eitthvað nýtt.

Ferðin til Kanada var einmitt upphafið að nýju og spennandi lífi fræða og rannsókna með Akureyri sem heimahöfn. Það var von okkar að samstarfið við Finnboga myndi halda áfram á næstu árum með áherslu á nýsköpun fyrirtækja og rannsóknir en örlögin hafa nú hagað því þannig að svo verður ekki – en minningin um öflugan og góðhjartaðan liðsmann góðvina Háskólans á Akureyri lifir áfram. Ég sendi Berglindi og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúðarkveðjur á erfiðum tímum.

Eyjólfur Guðmundsson, rektor
Háskólinn á Akureyri