Námskeið í fjölskylduhjúkrun

Calgary fjölskylduhjúkrun er eitt af leiðandi mats- og meðferðarlíkönum innan hjúkrunar á heimsvísu.
Námskeið í fjölskylduhjúkrun

Frumkvöðlar Calgary fjölskyldumats- og meðferðarlíkansins, dr. Lorraine M. Wright og dr. Janice M. Bell, halda námskið í fjölskylduhjúkrun á vegum heilbrigðisvísindasviðs og Símenntunar Háskólans á Akureyri 9.-12. október. Námskeiðið er meðal annars liður í því að efla samstarf HA við SAk og heilbrigðisstofnanir um allt land en með námskeiðinu eru einnig mörkuð mikilvæg skref í stefnumótun og samstarfi HA og SAk í gegnum Heilbrigðisstofnun Háskólans á Akureyri (HHA). HHA er vettvangur HA og SAk til að efla samstarfa í rannsóknum og kennslu innan beggja stofnanna.

Sjúkrahúsið á Akureyri hefur frá árinu 2016 unnið að innleiðingu Calgary fjölskylduhjúkrunar og stefnir að því að ljúka innleiðingu á haustmánuðum 2018. Calgary fjölskylduhjúkrun er eitt af leiðandi mats- og meðferðarlíkönum innan hjúkrunar á heimsvísu, rannsóknir hafa sýnt að fjölskyldustuðningur getur haft jákvæð áhrif á batahorfur sem getur leitt til markvissari og styttri innlagna. Calgary fjölskylduhjúkrun miðar að því að með góðri upplýsingasöfnun og ígrunduðum meðferðarsamtölum um þróun sjúkdóma, batahorfur og meðferð sé dregið úr þjáningu fjölskyldna með því að hafa áhrif á skilning fjölskyldna á heilsufarsvanda.

Í tengslum við innleiðingu fjölskylduhjúkrunar á SAk eru tveir meistaranemar við framhaldsnámsdeild heilbrigðisvísindasviðs HA að rannsaka viðhorf hjúkrunarfræðinga á SAk til fjölskyldna. Dr. Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir, dósent og forseti heilbrigðisvísindasviðs HA, og Snæbjörn Ómar Guðjónsson, geðhjúkrunarfræðingur við SAk og stundakennari við HA, eru leiðbeinendur meistaranemanna.

Fjölskylduhjúkrun er talin mikilvægur þáttur í að efla þverfaglega teymisvinnu. Íslenskar og alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt að hjúkrunarfræðingar sem hafa farið á námskeið um fjölskylduhjúkrun upplifa meiri starfsánægju, hafa sterkari faglega sjálfsmynd og upplifa minna álag í starfi.

Skráning er í fullum gangi í gegnum netfangið simenntunha@simenntunha.is.