Nemendur í námskeiðinu afbrot og löggæsla gefa út fræðslu- og forvarnaefni um netbrot

Nemendur öðlast skilning á því hvernig netbrot lýsa sér og hvaða hagsmunir eru í hættu.
Nemendur í námskeiðinu afbrot og löggæsla gefa út fræðslu- og forvarnaefni um netbrot

Nemendur í námskeiðinu afbrot og löggæsla í netheimum hafa nýlega unnið að því að koma þekkingu sinni á stafrænt form sem getur nýst öðrum. Þau hafa unnið í smærri hópum að því að búa til fræðslu- og forvarnaefni um hinar ýmsu birtingarmyndir afbrota í gegnum netið.

Meðal þeirra brota sem fjallað er um eru neteinelti, svokölluð tilfinningasvik, sem einnig hafa verið kölluð ástarsvindl, vefveiðar og fleiri tegundir fjársvika í gegnum netið. Einn hópur útbjó fræðsluleiðbeiningar fyrir foreldra um hvernig megi styðja börn við að tryggja öryggi sitt á samfélagsmiðlum, annar setti saman fræðandi hlaðvarp um samskiptamiðilinn Telegraph og þá hafa upplýsingar nemenda sem unnar voru í námskeiðinu um vefveiðar og hvað ber að varast í tengslum við Covid-19 faraldurinn þegar verið birtar á heimasíðu Almannavarna.

Markmið námskeiðsins er að nemendur læri að þekkja helstu birtingarmyndir afbrota sem styðjast við net eða tölvur og öðlist skilning á þeirri löggjöf sem máli skiptir við rannsókn slíkra mála, framkvæmd löggæslu á netinu og helstu tækniþætti sem brot af þessum toga reyna á.

„ Með því að vinna verkefni um netbrot þar sem nemendur fjallað bæði um forvarnir og viðbrögð vonum við að þau öðlist heildstæða sýn á netbrot sem tekur bæði mið af tækilegum og samfélagslegum þáttum. Þannig reynum við að tengja fræðin við framkvæmdina, sem er sérstaklega mikilvægt á málefnasviði sem þróast eins hratt og net- og tölvubrot. Það er svo auðvitað frábær bónus ef þessi stórfínu verkefni nemenda nýtast í forvarna- og fræðsluskyni“ segir María Rún Bjarnadóttir, lögfræðingur, sem sér um kennslu í námskeiðinu ásamt Daða Gunnarssyni, yfirmanni netbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. María og Dr. Andrew Hill eru umsjónarkennarar námskeiðisins.