Ný fræðigrein um fjölmiðla og stjórnmál á Íslandi

Birgir Guðmundsson dósent við HA rannsakar ólíkt eðli hefðbundinna fjölmiðla og samfélagsmiðla.
Ný fræðigrein um fjölmiðla og stjórnmál á Íslandi

Komin er út ritrýnd fræðigrein í tímaritinu Nordicom Review um fjölmiðla og stjórnmál á Íslandi þar sem byggt er á frambjóðendakönnunum úr þingkosningunum 2016 og 2017. Höfundur greinarinnar er Birgir Guðmundsson dósent við HA og heitir greinin „Logics of the Icelandic Hybrid Media System. Snapchat and media-use before the 2016 and 2017 Althing elections.“

Í tilefni af útkomu greinarinnar er rætt við Birgi á vefsíðu Nordicom, sem eru samtök norrænna fjölmiðlafræðinga með höfuðstöðvar í Gautaborg í Svíþjóð. Þar kemur m.a. fram hjá Birgi að í greininni sé verið að teikna upp á grundvelli rannsóknargagna hvernig ólíkt eðli hefðbundinna fjölmiðla annars vegar og samfélagsmiðla, m.a. Snapchat, blandast saman í það sem kalla má blandað fjölmiðlakerfi eða „Hybrid Media System“. Hann segir að enn virðist hefðbundnir fjölmiðlar ráða mestu um eðli umræðunnar en samfélagsmiðlar skipti þó sífellt meira máli enda séu yngri frambjóðendur marktækt virkari notendur samfélagsmiðla en eldri frambjóðendur. Birgir bendir á að hlutföllin milli hefðbundinnar miðlunar annars vegar og nýrri gátta sem byggja á upplýsingadreifingu milli manna hins vegar geti skipt miklu máli t.d. varðandi hvaða og hvers konar mál komast á hina pólitísku dagskrá og eins hvers konar stjórnmálamenn ná árangri.