Nýskipað umhverfisráð HA

Fyrsta verk að taka þátt í plastlausum september með glæsibrag
Nýskipað umhverfisráð HA

Háskólaráð staðfesti skipun umhverfisráðs á fundi sínum þann 27. ágúst síðastliðinn. Fulltrúar starfsfólks eru skipaðir til tveggja ára í senn og fulltrúar stúdenta til eins árs í senn. Ráðið skipar Yvonne Höller, prófessor við sálfræðideild sem er formaður ráðsins, Gunnar Rúnar Gunnarsson, forstöðumaður fasteigna og rekstrar, Kjartan Ólafsson, lektor við félagsvísindadeild, Guðrún Vaka Þorvaldsdóttir og Herdís Júlía Júlíusdóttir, fulltrúar stúdenta. ,,Ég er mjög bjartsýn að þetta starfsár verði mjög skemmtilegt og vonandi mjög viðburðaríkt, það fer náttúrulega líka svolítið eftir aðstæðum í samfélaginu hverju sinni. Ég finn strax mikinn kraft og áhuga hjá Yvonne að gera mikið fyrir umhverfisráð og verður eflaust mjög skemmtilegt og lærdómsríkt að fá að vinna með henni,’’ segir Guðrún Vaka fjármálastjóri SHA og annar tveggja fulltrúa stúdenta í ráðinu.

Umhverfisráð hefur starfað við Háskólann á Akureyri frá upphafi árs 2008. Ráðið starfar í samræmi við umhverfisstefnu HA. Á upphafsárum ráðsins var áhersla lögð á að fá vottun um Grænfána frá Landvernd og markvisst var unnið að bættri umgengni, úrgangsmálum og vitundarvakningu um umhverfismál innan skólans. Haustið 2013 hlaut HA, fyrstur háskóla á Íslandi, Grænfána Landverndar fyrir ötult starf að umhverfismálum.

,,Stór þáttur af vinnu umhverfisráðs er að halda í Grænfánann og sinna störfum sem til falla. Þeir skólar sem eru með Grænfána fara í úttekt á tveggja ára fresti og við þurfum því að halda uppi öflugu starfi til þess að halda fánanum. Við fylgjum sjö skrefum Landverndar, finnum til dæmis ný verkefni í skólanum og vinnum áfram að gömlum verkefnum og höldum þeim uppi. Draumurinn er að geta eflt meira fræðslustarf fyrir starfsfólk og stúdenta með ýmsum fyrirlestrum frá fyrirtækjum og einstaklingum sem eru öflugir í umhverfismálum. Okkar hlutverk sem fulltrúar stúdenta í ráðinu er að koma með hugmyndir frá sjónarhóli stúdenta, efla stúdenta til þátttöku og fylgja eftir stefnu SHA,’’ segir Guðrún Vaka.

Guðrún Vaka Þorvaldsdóttir

Guðrún Vaka fjármálastjóri SHA og annar tveggja fulltrúa stúdenta í ráðinu

Þessa dagana heldur umhverfisráð utan um þátttöku Háskólans á Akureyri í átakinu plastlaus september. Tilgangur verkefnisins er að vekja einstaklinga til umhugsunar um plastnotkun og þann plastúrgang sem fellur til dagsdaglega ásamt því að leita leiða til að minnka plastnotkun. Viðburðir umhverfisráðs og verkefni tengd átakinu miða að því að allir stúdentar og starfsfólk HA geti gert eitthvað til þess að draga úr plasti ásamt því að þróa nýjar hugmyndir um hvernig megi draga úr plasti allt árið. Hægt er að nálgast ítarlegri upplýsingar um átakið í Uglu.

,,Dæmi um viðburði á vegum umhverfisráðs í tengslum við plastlausan september er hugmyndasamkeppni sem stendur nú yfir á Instagram síðu HA og sérstakur plokkdagur. Bíllausi dagurinn er svo á dagskrá 22. september en hann er í sérstöku uppáhaldi hjá mér þar sem það hefur myndast hefð tengd þeim degi. Ég væri til í að hafa slíkan dag oftar, hann mætti til dæmis einnig vera á vormisseri,’’ segir Guðrún Vaka.

Umhverfisráð hvetur alla stúdenta og starfsfólk HA til að taka virkan þátt í plastlausum september og vera áfram fyrirmyndir í umhverfismálum.

Áskorun í Plastlausum september