Ný staða gæða- og mannauðsstjóra við Háskólann á Akureyri

Vaka Óttarsdóttir ráðin í starf gæða- og mannauðsstjóra
Ný staða gæða- og mannauðsstjóra við Háskólann á Akureyri

Í júní síðastliðnum var nýtt starf gæða- og mannauðsstjóra Háskólans á Akureyri auglýst laust til umsóknar og hefur Vaka Óttarsdóttir verið ráðin í starfið og hefur hún hafið störf. Um nýtt starf innan háskólans er að ræða en Sigrún Magnúsdóttir hefur starfað sem gæðastjóri skólans um árabil og mun Háskólinn á Akureyri áfram njóta krafta hennar og reynslu þar sem hún mun starfa áfram við skólann að ýmsum sérverkefnum, m.a. í tengslum við stofnanaúttekt og önnur gæðamál. Vaka mun taka við forystu í gæðastjórnun háskólans ásamt því að veita faglega forystu í mannauðsmálum þar sem hún mun vinna náið með rektor og öðrum stjórnendum að því að byggja Háskólann á Akureyri upp sem enn betri og öflugri vinnustað.

Vaka Óttarsdóttir starfaði síðastliðið skólaár sem forstöðumaður þróunar og umbóta á Hug- og félagsvísindasviði Háskólans á Akureyri en áður starfaði hún m.a. hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Mentor, sem framkvæmdastjóri, vöruþróunarstjóri og mannauðsstjóri. Vaka hefur lokið B.A. gráðu í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands, B.Ed. gráðu í kennslufræði frá Kennaraháskóla Íslands og M.Sc. gráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands. Einnig hefur hún lokið diplómanámi í NLP markþjálfun.

Háskólinn á Akureyri býður Vöku hjartanlega velkomna til starfa.

Alls sóttu níu einstaklingar um starfið en umsækjendur um stöðuna voru:

  • Arnheiður Eyþórsdóttir
  • Áróra Gústafsdóttir
  • Fjóla Björk Gunnlaugsdóttir
  • Rúna Kristín Sigurðardóttir
  • Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir
  • Sigurbjörg Rún Jónsdóttir
  • Sólveig Rósa Davíðsdóttir
  • Tryggvi Rúnar Jónsson
  • Vaka Óttarsdóttir