Nýnemar hlaupa um ganga skólans

Tæplega 2400 nemendur munu stunda nám við Háskólann á Akureyri haustmisserið 2019.
Nýnemar hlaupa um ganga skólans

Í vikunni fóru fram nýnemadagar við Háskólann á Akureyri. Um 700 nýnemar hefja nám við skólann –á bakklár-, meistara- og doktorsnámsstigi.

Flestir hefja nám við hug- og félagsvísindadeild eða 363 manns. 183 hefja nám við viðskipta- og raunvísindasvið og 180 við heilbrigðisvísindasvið.

Á nýnemadögum fá nemendur kynningu á öllum helstu þáttum háskólasamfélagsins. Farið var í ratleik þar sem nemendur kynntust hvert öðru, húsnæði skólans ásamt því að fá kynningu frá grunnþjónustunni, s.s. bókasafni, kennslumiðstöð og náms- og starfsráðgjöf.

Í ávarpi rektors til nýnema komu fram ýmis góð ráð varðandi námið framundan og brýndi hann fyrir hópnum að háskólanám væri full vinna. Þeir sem ætluðu sér að vinna aðra vinnu meðfram námi þyrftu því að skipuleggja sig vandlega.

„Háskólinn á Akureyri hefur nú hafið sitt 32. starfsár. Á þessu nýja starfsári hefur skólinn styrkt stöðu sína enn frekar og sýnt framá að skólinn sé öflug mennta- og rannsóknastofnun sem er mikilvægur þáttur í uppbyggingu mannauðs um allt land. Aldrei hafa fleiri nemendur verið skráðir í skólann en síðustu tvö ár og hefur aðsóknin sýnt að mikill áhugi er á því námsumhverfi sem skólinn bíður uppá. Þrátt fyrir þessa miklu aukningu hefur fræðasamfélag skólans skilað metári í rannsóknum og ánægja nemenda með námið farið framúr björtustu vonum.

Þessi mikla vinna er þó farin að hafa áhrif á okkar háskólasamfélag og við sjáum merki aukins álag í starfsmannakönnunum hjá okkur. Á sama tíma er ljóst hver fjárhagsrammi okkar er og höfum við þurft að herða aðgangstakmarkanir til að halda okkur innan fjárhagsramma og tryggja gæði námsins á komandi misserum. Þá mun stærri hópur en áður keppa um sæti á vormisseri í samkeppnisprófum við skólann í haust og ljóst er að ekki verður rými fyrir alla þá sem ekki komast áfram í samkeppnisprófum í öðrum greinum. Það er því orðið erfiðara um aðgengi að háskólanámi fyrir nemendur við Háskólann á Akureyri – skóla sem hefur sérhæft sig í að veita nemendum um allt land aðgengi að háskólamenntun úr sinni heimabyggð og hefur þannig opnað mörgum tækifæri til háskólanáms - fólki sem ekki hafði slíkt aðgengi áður. Á komandi skólaári er því orðin mikil þörf á samfélagslegri umræðu um hvort og þá með hvaða hætti við viljum tryggja aðgengi fólks að háskólum til framtíðar“, segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.