Nýtt meistaranámskeið í viðskiptafræði

Stjórnun fjölskyldufyrirtækja í boði í fyrsta skiptið á Íslandi
Nýtt meistaranámskeið í viðskiptafræði

Í fyrsta skipti er námskeiðið Stjórnun fjölskyldufyrirtækja í boði á Íslandi hjá Háskólanum á Akureyri. „Þetta er nýtt og einstakt námskeið í viðskiptafræðinni okkar. Námskeiðið nær yfir ýmsar hliðar í rekstri fjölskyldufyrirtækja, þ.á.m. áætlanagerð, stjórnun fjölskyldunnar á eignarhaldi og rekstri, samkeppnishæfi, og viðhald á eignarhaldi fjölskyldunnar,” segir Trung Quang Ðinh, lektor og umsjónarkennari námskeiðsins.

Einnig er farið yfir mismunandi gerðir stjórnarhátta sem geta ýtt undir forskot fjölskyldunnar og tekist á við einstæðar áskoranir í rekstri.

Mikilvægi rekstrarstjórnunar

„Oft tengir fólk orðið „fjölskyldufyrirtæki“ við lítil fyrirtæki sem rekin eru af örfáum fjölskyldumeðlimum. Þótt sú túlkun sé ekki röng er hún ekki endilega rétt. Fæstir vita kannski að Volkswagen, Ford Motors, L’Oréal og IKEA eru fjölskyldufyrirtæki. Fjölskyldufyrirtæki ná sem sagt yfir allan skalann, allt frá litlum rekstri að stórum hlutafélögum sem starfa um allan heim. Fast er þó haldið utan um stjórnun margra þeirra á meðan önnur eru á opinberum hlutabréfamarkaði. Í mörgum hagkerfum um heim allan samanstendur allt að 70-90% reksturs af fjölskyldufyrirtækjum og leggja þau mikið af mörkum til starfsframboðs og vergrar landsframleiðslu. Hinsvegar gefa rannsóknir til kynna að innan við 5% af fjölskyldufyrirtækjum lifi af fram yfir þriðju kynslóð, sem er sorglegt og ískyggilegt, miðað við það hversu mikilvægt hlutverk þau leika í hagkerfum þjóða,“ segir Trung Quang Ðinh.

Markmið námskeiðsins

Að námskeiði loknu ættu nemendur að geta:

  • Lýst sameiginlegum eiginleikum og einkennum fjölskyldufyrirtækja.
  • Útskýrt og metið algeng hugtök og líkön sem notuð eru um fjölskyldufyrirtæki
  • Notað viðeigandi kenningar til að endurspegla og greina sameiginlegar áskoranir stjórnenda fjölskyldufyrirtækja.
  • Rætt og metið ýmsa stjórnunarhætti í fjölskyldufyrirtækjum.
  • Hjálpað fjölskyldufyrirtækjum að skilja betur styrk sinn og veikleika sína.
  • Aðstoða fjölskyldufyrirtæki við að hanna viðeigandi skipulag.
  • Ráðleggja fjölskyldufyrirtækjum við að undirbúa áætlanir um arftöku.
  • Hjálpa fjölskyldufyrirtækjum að byggja upp heppilegt kerfi til að hafa stjórn á fjölskyldutengslum og fjölskylduátökum.
  • Ráðleggja fjölskyldufyrirtækjum um hönnun viðeigandi áætlun til að fyrirtækið viðhaldist og dafni milli kynslóða.

„Að námskeiði loknum ættu nemendur að geta skilið sérkenni fjölskyldufyrirtækja og efnahagslegt hlutverk þeirra. Ennfremur ættu nemendur að geta borið kennsl á og rætt möguleg forskot og einstakar áskoranir fjölskyldufyrirtækja. Einnig ættu þeir að vera meðvitaðir um annars konar stjórnunarhætti sem fjölskyldufyrirtæki gætu þurft til að takast á við ólíkar áskoranir,“ segir Trung Quang Ðinh.

Allir framhaldsnemar gjaldgengir

Allir framhaldsnemar sem hafa áhuga á því að fræðast um fjölskyldurekstur geta sótt námskeiðið. „Þetta námskeið gagnast þeim sem vinna fyrir fjölskyldufyrirtæki eða tilheyra fjölskyldum sem reka fyrirtæki eða þeim sem stefna á að stofna fjölskyldufyrirtæki í framtíðinni. Þar sem þetta námskeið er nýtt og eingöngu í boði við Háskólann á Akureyri frá og með vormisseri 2022, mælum við með því að verðandi nemar hafi samband við skrifstofustjórann okkar hvað varðar lokafrest á skráningu,“ segir Trung Quang Ðinh.

Hver er Trung Quang Ðinh?

„Árið 2018 öðlaðist ég doktorsgráðu í umsjón og rekstri fjölskyldufyrirtækja frá Wittenstofnuninni í fjölskyldurekstri við Witten/Herdecker-háskólann í Þýskalandi. Frá því að ég hóf doktorsnámið hef ég tekið þátt í ýmsum rannsóknarverkefnum og birt greinar í tímaritum á þessu fræðisviði, svo sem í Entrepreneurship Theory and Practice og International Journal of Management Reviews. Áður en ég hóf nám vann ég bæði fyrir fjölskyldufyrirtæki og almenn fyrirtæki úr mismunandi greinum, svo sem smásölu, framleiðslu, byggingaframkvæmdum og flugmálum. Innsýn mín inn í ýmsan iðnað og áframhaldandi fræðileg reynsla mín mun vissulega auðga námskeiðið,“ segir Trung Quang Ðinh.

Nánari upplýsingar um skráningu á námskeiðið veitir Ása Guðmundardóttir, skrifstofustjóri Viðskipta- og raunvísindasviðs – asa@unak.is.