Prófatíð haustmisseris 2021-2022

60% af áætluðum prófum Háskólans á Akureyri hefur verið breytt í heimapróf
Prófatíð haustmisseris 2021-2022

Til að bregðast við hertum sóttvarnarreglum hefur rúmlega 60% af áætluðum prófum Háskólans á Akureyri hefur verið breytt í heimapróf. Í prófum á prófstað verður – líkt og í fyrra - öllum fyrirmælum almannavarna fylgt eftir en þær fela í sér takmarkaðan fjölda í rými, 1 metra fjarlægð og grímuskyldu. Heimilt verður að taka grímu niður þegar stúdent situr við sitt borð.

Úrvals prófverðir

„Við erum komin með ágæta reynslu í því að halda próf þar sem við þurfum að framfylgja þeim sóttvarnarreglum sem almannavarnir setja hverju sinni. Svo erum við líka með úrvals prófverði sem mæta til starfa hvort sem það er heimsfaraldur eða óveður. Þau eru mjög samviskusöm og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að framkvæmd prófa sé samkvæmt reglum háskólans og að sóttvörnum sé fylgt eftir,“ segir Bryndís Ásta Böðvarsdóttir, prófstjóri við Háskólann á Akureyri.

Sóttkví eða einangrun í prófatíð vegna COVID-19 (almenn próf)

Stúdentar sem skráðir eru í próf á prófstað en hafa verið skipaðir í sóttkví eða einangrun af sóttvarnarteymi landlæknis vegna COVID-19 geta sótt um rafræna vöktun í prófi.

Forsenda rafrænnar vöktunar er eingöngu sóttkví eða einangrun. Stúdentar í smitgát eru hvattir til að sýna sérstaka aðgæslu sbr. covid.is

Rafræn vöktun í samkeppnisprófum (klásus)

Rafræn vöktun verður ekki í boði fyrir stúdenta í samkeppnisprófum í aðalprófatíð þar sem þau þurfa að fylgja stöðluðum verkferlum. Hafi stúdent verið forfallaður í aðalprófi og lendir í sóttkví/einangrun í sjúkraprófi (15. og 16. des.) getur hann sótt um rafræna vöktun og sendir þá sérstaka beiðni.